„Sum svörin eru mjög svipuð“...

Nokkrir strákar í 8. bekk í Háteigsskóla í Reykjavík hafa tekið viðtöl við oddvita allra framboða í borginni. Þeir eru óhræddir við að spyrja krefjandi spurninga og segja að svör stjórnmálamannanna eigi það til að vera svipuð.  Það eru nokkur ár í að þeir fái að kjósa sjálfir, en þeir fylgjast líklega betur með stjórnmálunum en flestir aðrir, reyndar svo mikið að fyrir fjórum árum þegar þeir voru tíu ára stofnuðu þeir Fréttastofu áhugamanna um pólitík. Þeir hafa nú tekið oddvita allra flokka sem bjóða fram í Reykjavík tali og afraksturinn má sjá á YouTube.

Strákarnir á fréttastofunni eru að öllu jöfnu fjórir, en Magnús Sigurður Jónasson var fjarri góðu gamni þegar fréttastofa hitti þá að máli.„Við erum að spyrja allskonar spurninga. Aðallega um stefnumálin hjá þeim og hvað þeim finnst um allskonar hluti,“ segirMatthías Atlason.Leggið þið áherslu á krefjandi spurningar? „Það eru sumar krefjandi spurningar en flestar þeirra eru frekar einfaldar.“

Og strákarnir segja að viðmælendurnir séu að öllu jöfnu fúsir til svara. „Sum svörin eru mjög svipuð, sum eru mjög ólík,“ segir Arnmundur Sighvatsson. „Það fer bara eftir stefnumálum flokkanna.“

Finnst ykkur fólk alltaf svara spurningum beint? „Ekkert allir sko.“

Koma kannski öðruvísi fram við krakka

Heldurðu að fólk svari spurningum öðruvísi þegar krakkar eru að spyrja?
„Já, það getur stundum verið þannig að þau koma kannski öðruvísi fram við þau og tala kannski á öðruvísi hátt,“ segirÚlfur Marínósson.

Þrátt fyrir að útsending frá Söngkeppni evrópskra sjónvarpsstöðva verði á sama tíma ætla strákarnir að fylgjast með úrslitum kosninganna á laugardaginn. „Já, ég ætla að sjálfsögðu að horfa,“ segir Úlfur og Arnmundur og Matthías taka undir það.

Og í þáttunum hvetja drengirnir fólk til að nýta kosningaréttinn, sem þeir sjálfir fá þó ekki fyrr en eftir fjögur ár. „Ég vil bara óska eins af ykkur: Kjósa!“