„Það var öskrað svo hátt að lítil börn fóru að gráta“...

Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson foreldrar fulltrúa Íslands í Eurovision segja mikinn fögnuð hafa brotist út í fjölskyldunni þegar í ljós kom að framlag Íslands komst í úrslit. Þau hafi alltaf haft trú á því. Nú er verið að skoða hvort einhverjir fulltrúar fjölskyldunnar verið meðal áhorfenda ytra. Lagið Með hækkandi sól í flutningi systranna Siggu, Betu og Elínar og bróður þeirra Eyþórs Inga er komið í úrslit Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva eftir fyrra úrslitakvöldið í gær. Lagið var það þriðja sem tilkynnt var um. Foreldrar systkinanna eru að vonum ánægð með árangurinn, en þau fylgdust grannt með framvindunni í gær.

„Fjölskyldan var samankomin, við vorum kannski svona fimmtíu manns og það var öskrað svo hátt að lítil börn fóru að gráta,“ segir Eyþór Gunnarsson faðir listamannanna.

Foreldrarnir eru bæði þekkt tónlistarfólk og móðirin, Ellen Kristjánsdóttir, var afar ánægð með flutninginn í gær.

„Bara frábært, alveg ótrúlega flott og æðislegt. Frábært lag og meiriháttar.“

Laginu hefur ekki alls staðar verið spáð velgengni, en foreldrarnir voru sannfærðir um að lagið kæmist áfram í úrslitakeppnina. Vissulega hafi umræðan verið á annan veg og Eyþór bendir á að í fréttum Rúv í gær hafi aðeins einn viðmælandi í frétt um keppnina haft trú á að lagið færi áfram.

„En við trúðum því alltaf að þau myndu ná að heilla áhorfendur eins og þau sannarlega gerðu.“

Stóra kvöldið er svo framundan, úrslitakvöldið á laugardag og Ellen er bjartsýn á gott gengi.

„Í mínu hjarta og huga eru þau þegar búin að vinna. Þau er með góð skilaboð og eru sjálfum sér samkvæm. Og Lovísa er frábær og allt fólkið í kringum þau. Ég held að þau eigi eftir að standa sig alveg ótrúlega vel og koma okkur skemmtilega á óvart.“

Eyþór og Ellen voru í hlutverki afa og ömmu í gær, voru heima að passa börn keppendanna. En vel gæti farið að þau yrðu í Tórínó á úrslitakvöldinu sjálfu.

„Það er svona aðeins verið að skoða hvort það fari að minnsta kosti einhverjir fulltrúar fjölskyldunnar, en það verður athugað betur í dag og næstu daga,“ segir Eyþór og Ellen segir að boðað verði til fjölskyldufundar.