Vilja reglur og eftirlit um fylliefni...

Heilbrigðisráðherra vill setja reglur um hverjir mega sprauta fylliefnum í fólk. Lyfjastofnun undirbýr nú eftirlit með slíkri starfsemi. Forstjóri stofnunarinnar kallar eftir að slíkri starfsemi verði settar meiri skorður. Hér á landi eru engar reglur um hver getur sprautað fylliefnum í fólk og talsvert er um að fólk án heilbrigðismenntunar reki slíka starfsemi, eins og fram kom í fréttum okkar í gær.

Heilbrigðisráðherra vinnur nú að reglugerð um notkun fylliefna og þar eru meðal annars lagðar til takmarkanir á því hverjir megi sprauta slíkum efnum. Þá er markmiðið að auka eftirlit með þessari starfsemi til að auka öryggi þeirra sem sækja sér slíka þjónustu. Lyfjastofnun undirbýr nú eftirlit með notkun fylliefna.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir fyllstu ástæðu til að auka eftirlitið. „Það er mikilvægt að fylgjast með þessu,“ segir hún.

Evrópulöggjöf, sem tók gildi í fyrra, kveður á um að fylliefnin eigi að uppfylla tiltekna staðla og með gildistöku hennar varð Lyfjastofnun skylt að hafa eftirlit með öllum þeim sem fara með fylliefni, líka þeim sem eru ekki með heilbrigðismenntun. „Þá erum við að fara að skoða hvort efnin uppfylli þessa gæðastaðla og hvort þau séu notuð eins og á að nota þau,“ segir Rúna.

Sjá einnig:Segir fylliefnabransann vera eins og villta vestrið

„Læknastofur og heilbrigðisstofnanir eru nú þegar eftirlitsþegar þannig að við vitum nákvæmlega um þá og hvar þeir eru. En um hitt vitum við minna, en höfum þó töluverðar upplýsingar.“

Þú segir að þið hyggið á eftirlit með þessum stofum – veistu hversu margir eru í þessari starfsemi? „Nei. ég hefekki upplýsingar um það eins og er,“ segir Rúna.