Rúmlega 1.230.000 skepnur í bústofni Íslendinga...

Bústofn Íslendinga samanstóð um áramót af um það bil 1.236.267 skepnum. Bændablaðið greinir frá þessu. Þótt gefin sé upp nákvæm tala er ekki þar með sagt að hún segi rétt til um fjölda búfjár í landinu, segir í blaðinu, því talning á hrossum hefur verið í ólestri í mörg ár og er enn. Nautgripir voru 80.563 um áramótin og 385.194 ær, lömb og hrútar voru þá á vetrarfóðrum. Hefur sauðfé ekki verið færra á landinu síðan 1861, segir í frétt Bændablaðsins. Tvær tölur voru hins vegar gefnar upp um fjölda hrossa; 54.069 og 69.500, og skeikar þar ríflega 15.400 hrossum.

Miklar sveiflur í fjölda alifugla

10.166 svín voru á fæti um áramótin og alifuglar voru 689.616 þegar allt er talið. Er það veruleg fækkun frá árinu 2020, en þá voru alifuglar 842.943. Mestu munar þarna um helmingsfækkun varphæna, sem fara úr 200.643 í 100.565 á milli ára.

Undir alifugla falla annars varphænur, holdahænsni, kjúklingar, endur, gæsir, kalkúnar og fleira fiðurfé. Fram kemur að erfitt sé að henda reiður á fjölda alifugla, þar sem hann sveiflist ört vegna hraðs vaxtar og örrar slátrunar.