Sameinað sýslumannsembætti verður á landsbyggðinni...

Öll níu sýslumannsembætti landsins verða sameinuð í eitt, sem mun hafa höfuðstöðvar á landsbyggðinni. Þetta kemur fram í nýju frumvarpi Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra, sem hann ætlar að leggja fram á Alþingi í haust. Morgunblaðið greinir frá. Í frétt blaðsins segir að hinu nýja embætti verði ætlað að hafa umsjón með rekstri níu skrifstofa „sýslumanna í héraði“ sem yrðu þá eins konar umdæmisstjórar fyrir hönd hins eina, eiginlega sýslumannsembættis.

Þessar níu skrifstofur yrðu aðalskrifstofur í hverju umdæmi fyrir sig, samkvæmtfrétt blaðsins, og þær 15 starfsstöðvar aðrar sem reknar eru í dag verða líka starfræktar áfram, nái hugmyndir ráðherra fram að ganga. Raunar hyggst Jón festa rekstur allra 24 starfsstöðvanna í lög með frumvarpi sínu. „Þannig að ef einhver vill loka einhverri þeirra, þá verður það að fara í gegnum þingið,“ segir ráðherrann í samtali við Morgunblaðið.