Innkalla svefnlyf vegna hættu á ofskömmtun...

Lyfjastofnun hefur innkallað svefnlyfið Theralene vegna misvísandi merkinga á umbúðum sem hafa orðið til þess að börnum hefur verið gefinn of stór skammtur. Ungt barn var nýlega lagt inn á spítala eftir að hafa fengið of stóran skammt af lyfinu. Theralene er undanþágulyf sem einkum er notað á börn. Það kemur í stað annars lyfs, Vallergan, sem hefur verið ófáanlegt um nokkurt skeið.Vegna misræmis milli merkinga og fyrirmæla til lækna hefur lyfið nú verið innkallað.

„Það er ekkert að vörunni sem slíkri en málið er það að það fylgir lyfinu skammtasprauta og merkingarnar á henni eru í dropum á meðanávísunarfyrirmæli lækna ganga út á millilítra,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.

Að minnsta kosti eitt alvarlegt tilvik ofskömmtunar hefur verið tilkynnt til Lyfjastofnunar en þar þurfti barn að leggjast inn á spítala. Rúna segir að Lyfjastofnun hafi metið sem svo að hættan af mistökum væri það mikil að réttast væri að innkalla lyfið.

Svefnlyfið Vallergan hefur nú verið ófáanlegt á Íslandi í rúmt ár og þetta er ekki í fyrsta sinn sem hætta skapast vegna lyfja sem eiga koma í staðinn.

Í fyrravor fékk barn á leikskólaaldri alvarlega eitrun eftir að hafa innbyrt áttfaldan skammt af lyfinu Alimemazin Orifarm.Ástæða mistakanna þá var að mixtúran var sterkari en Vallergan og hefði barnið því átt að fá mun minni skammt en það var vant frá hinu lyfinu.

Sjá meira: Áttfalt sterkara svefnlyf olli alvarlegri eitrun