Landbúnaðarháskólanum og Háskólanum á Hólum vegnar vel...

Skólabyrjun nálgast og þar eru háskólar landsins engin undantekning. Rektorar Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólans á Hólum taka fagnandi á móti enn einu skólaárinu. Eftirsótt og mikilvægt nám í Landbúnaðarháskóla Íslands

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskólans, segir mikla eftirsókn í námið oggrósku í starfi skólans. „Ég held að hún bara muni aukast enn frekar og við sjáum líka mikinn áhuga erlendis frá, við erum að fá margar umsóknir frá erlendum skiptinemum sem vilja koma til okkar,“ segir Ragnheiður.

Hún segir starf skólans alltaf eiga erindi: „Þetta er náttúrulega bara grunnurinn af lífi okkar, sem við erum að kenna í landbúnaði og umhverfismálum og skipulagsmálum, landslagsarkitektúr, þetta er eiginlega bara allt umhverfið okkar sem snýr að þessum málefnum.“

Nú hefur verið innleidd ný stefna sem leggur áherslu á framsækni í rannsóknarstarfsemi skólans. „Og sáum þá þetta fyrir að með því þá myndum við stækka þennan hóp sem er í framhaldsnáminu hjá okkur og hann myndi síðan styðja við kennsluna því þessir nemendur koma náttúrulega að kennslunni líka og eru þá að nýta sínar rannsóknir beint inn í kennsluna,“ segir Ragnheiður.

Stanslaust unnið að því að efla starf Háskólans á Hólum

Undanfarið ár hefur verið nokkuð um skipulagsbreytingar í Háskólanum á Hólum sem Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor skólans, segir reynslu vera að komast á. „En bara svona hvernig skólanum vegnar að þá er það bara svo sem í ágætis farvegi. Áhugi á skólanum er svona svipaður og hefur verið,“ segir Hólmfríður.

Áfram verði unnið að því að efla starf skólans, enda séu þar námsbrautir sem byggi undir mikilvægar stoðir í atvinnulífi landsins.