MAST fær ákúrur vegna Hvals hf....

Matvælastofnun braut lög með því að draga um of útgáfu starfsleyfis til Hvals hf. með seinagangi í svörum og ómarkvissri rannsókn á aðstæðum, samkvæmt úrskurði matvælaráðuneytisins. Fyrirtækið fékk starfsleyfi til vinnslu hvalafurða 7. október á síðasta ári, eftir að hafa beðið í þrjú ár. Framkvæmdastjóri Hvals hf. kærði Matvælastofnun til matvælaráðuneytisins, sem þá hét atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, í september í fyrra, fyrir að hafa dregið að afgreiða starfsleyfi til fyrirtækisins að óþörfu. Hann byggir kæruna meðal annars á að meðferð málsins hafi einkennst af óskilvirkni sem hafi birst í þeim langa og óútskýrða tíma sem liðið hafi frá einstökum fyrirspurnum, og ítrekuðum tvítekningum.

Hann telur að málsmeðferðin kunni að hafa markast af andúð í garð starfsemi fyrirtækisins, og að stofnunin hafi meðvitað leitast við að drepa málinu á dreif. Framkvæmdastjórinn heldur því fram að tafir á afgreiðslu leyfisins hafi valdið því að Hvalur hf. hafi ekki stundað hvalveiðar árin 2019 og 2021, en Matvælastofnun hafnar því og vísar í viðtöl við hann þar sem hann útskýrir hlé á veiðum með öðrum hætti.

Niðurstaða matvælaráðuneytisins í dag er sú að hvað sem því líði hafi óréttlætanlegar tafir orðið á útgáfu leyfisins og Matvælastofnun þannig brotið stjórnsýslulög um að ákvarðanir skulu teknar svo fljótt sem unnt er og að stofnun beri að upplýsa um fyrirsjáanlegar tafir.