Slydda, snjókoma og hálkublettir í júlí...

Nokkrar veðurviðvaranir vegna úrkomu og vinda eru í gildi til hádegis. Alldjúp lægð er suðaustur af landinu sem veldur norðanátt og dregur svalt heimskautloft yfir landið. Lægðin veldur líka úrkomu á austanverðu landinu og rignir dálítið þar, en vegna kuldans er sums staðar slydda eða snjókoma til fjalla og hálkublettir á vegum. Vegfarendur sem fóru um fjallvegi á Austurlandi í nótt lentu sannkallaðri vetrarfærð og er meðfylgjandi mynd tekin á Fjarðarheiði uppúr miðnætti. Lukka Sigríður Gissurardóttir sem tók myndina segir að allt hafi verið hvítt á löngum kafla á heiðinni.

Sunnanlands er spáðlítilli úrkomuog mildu veðri,sést jafnvel til sólar. Á morgun er spáð vestantrekkingi og rigningu víða norðanlands, en mun hægara og stöku skúrum syðra. Sums staðar hvöss vestnátt og hviðótt úti við norðausturströndina og er veðurviðvörun í gildi þess vegna.

Áfram norðan- og norðvestanátt á frídegi verslunarmanna og dálítil væta norðantil, en annars bjart með köflum og svipaður hiti og um helgina.