Mildi að enginn varð fyrir stærðar bjargi í skjálftanum...

Mikið grjóthrun varð nálægt Ísólfsskála þar sem Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, rithöfundur og baráttukona, dvelur ásamt fjölskyldu sinni þegar stóri jarðskjálftinn reið yfir rétt fyrir klukkan sex. Bjarg féll á vatnslögn og hafði hana í sundur, Þórdís segir mildi að enginn hafi orðið fyrir bjarginu. Fjölskyldan ætlaði að verja helginni á svæðinu en hafi ákveðið að fara heim. „Það var frekar skelfileg sjón að sjá rykbólstrana stíga hérna til himna þegar hrundi svona úr fjöllunum,“ segir Þórdís. Þórdís stóð utandyra á meðan skjálftinn reið yfir og fylgdist með grjóthruni úr hlíðinni fyrir ofan þau og fjöllunum í kring. „Það var mikill dynkur hérna í námunda við húsið. Það var bara mikil mildi að við vorum ekki nær hlíðinni en raun ber vitni. Það féll stórt bjarg hérna úr hlíðinni og hafði í sundur vatnsleiðslu. Þannig a nú stendur bara svona vatnsstrókur hérna uppí loftið hjá okkur.“

Þrórdís Elva segist áætla að bjargið sé um hálft tonn á þyngd. „Þannig þetta hefði náttúrulega steindrepið hvern þann sem hefði orðið fyrir þessu bjargi og það er ekkert langt síðan að okkar börn voru hér að týna ber á þessum nákvæmlega sama stað. Þetta svona kannski setur hlutina í smá samhengi, maður áttar sig á hvað náttúruöflin eru svakaleg.“

Þórdís segist gjarnan vilja vara aðra við. „Nú er ég búin að sjá það í nærmynd hversu hættulegt það er að vera nálægt hlíðum eða þar sem þetta grjóthrun getur átt sér stað.“Hún segir börnin vera hrædd eftir skjálftann.