Ráðuneyti spyrst fyrir um ráðningarsamning bæjarstjóra...

Innviðaráðuneytið skoðar nú hvort rétt sé að hefja frumkvæðisathugun á hvort réttilega hafi verið staðið að því að samþykkja ráðningarsamning við bæjarstjóra Fjarðabyggðar. Bæjarfulltrúinn sem ráðinn var bæjarstjóri greiddi sjálfur atkvæði um eigin kaup og kjör. Eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar hélt meirihluti Framsóknar og Fjarðalista velli og var samþykkt að Jón Björn Hákonarson, bæjarfulltrúi Framsóknar, skyldi halda áfram sem bæjarstjóri. Bæjarstjórn samþykkti bæði ráðninguna og svo einnig ráðningarsamninginn og greiddi Jón Björn atkvæði.

Nýverið sendi innviðaráðuneytið bréf til Fjarðabyggðar vegna þess álitamáls hvort kjörnir fulltrúar megi taka til máls og greiða atkvæði um eigin ráðningarsamning. Óskað var eftir afstöðu Fjarðabyggðar og einnig gögnum um meðferð ráðningarsamningsins hjá sveitarstjórn.

Á síðasta fundi bæjarráðs lýstu fulltrúa Framsóknar og Fjarðalista yfir furðu vegna erindisins. Samkvæmt 20. grein sveitarstjórnarlagaséu sveitarstjórnarmenn ekki vanhæfir til að velja fulltrúa til trúnaðarstarfa eða ákveða þóknun fyrir slíkt.

Erindið frá ráðuneytinu sprettur af ábendingu frá Ragnari Sigurðssyni, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð. Á bæjarstjórnarfundi gerði hann athugasemdir við biðlaunarétt í ráðningarsamningnum en undir þeim lið tók Jón Björn bæjarstjóri til máls um eiginkjör. Ragnartelur að lögin heimili sveitarstjórnarmönnum að taka þátt í að ráða sig sem bæjarstjóra og að ákveða þóknun fyrir nefndarstörf en ekki að samþykkja heilan ráðningarsamning við sjálfa sig. ,,Þá er hann bara vanhæfur. Hann er vanhæfur til að fjalla um sín eigin kaup og kjör. Ráðuneytið er að kalla eftir göngum til að meta hvort það sé almennt staðið rétt að þessu og ég veit það eftir ekkert mjög gaumgæfilega skoðun að það er ekki ein regla í þessu. Stundum víkja pólitískt ráðnir bæjarstjórar og stundum ekki. Þannig að ég fagna í rauninni því að ráðuneytið sé að skoða þessi mál og þá gefur það tilefni til að skerpa á vinnulaginu,” segir Ragnar.