Alþingi sett við hátíðlega athöfn...

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, setur 153. löggjafarþing Alþingis að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Þingmenn ganga til kirkju klukkan 13:25 og þaðan aftur í Alþingishúsið um klukkan 14:05. Þingfundi verður slitið klukkan 14:45, að lokinni setningarræðu forseta, og áfram haldið klukkan 15:30.

Þá verður sætum þingmanna úthlutað og fjárlagafrumvarpi næsta árs útbýtt. Auk þess flytur forseti þingsins, Birgir Ármannsson,minningarorð um látna þingmenn. Fundi verður svo slitið klukkan 15:50.

Sýnt verður beint frá ræðu forseta Íslands á RÚV og hér á vefnum, ruv.is. Útvarpað verður frá guðsþjónustu í Dómkirkjunni og þingsetningarfundinum öllum í kjölfarið á Rás 1.

Stefnuræða Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og umræður um hana verða annað kvöld klukkan 19:35. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mælir svo fyrir nýju fjárlagafrumvarpi á fimmtudag.