Um 8.700 skjálftar á tæpri viku...

Um 8.700 jarðskjálftar hafa mælst á Grímseyjarbrotabeltinu frá því að yfirstandandi skjálftahrina hófst þar fyrir tæpri viku, aðfaranótt 8. september. Heldur hefur dregið úr skjálftavirkninni síðasta sólarhringinn en Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir þó of snemmt að fullyrða að hrinan sé að fjara út. „Þetta er svona aðeins að róast, og skjálfarnir eru aðeins færri og aðeins minni,“ segir Sigríður, en minnir á að virknin hafi líka minnkað á sunnudaginn var, en færst svo aftur í aukana á mánudag. „Þannig að það er of snemmt að lýsa því yfir að þetta sé búið,“ segir Sigríður.

Um 180 skjálftar hafa mælst yfir 3 að stærð í þessari hrinu og átta hafa verið stærri en 4. Sá öflugasti, 4,9 að stærð, reið yfir í upphafi hrinunnar, aðfaranótt 8. september. Daginn eftir var óvissustigi lýst yfir við Grímsey vegna jarðskjálftanna og er varðskipið Þór í viðbragðsstöðu nærri eynni.

Grímseyjarbrotabeltið er hluti af Tjörnesbrotabeltinu, sem er afar virkt skjálftasvæði. Þar varð síðast svipuð hrina og þessi í febrúar 2018.