Prjóna saman sokka á úkraínska hermenn...

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Sú varð raunin þegar íslensk kona fékk þá hugmynd að færa úkraínskum konum garn til að prjóna úr og stuðla að samverustundum íslenskra og úkraínskra kvenna. Nú er meðal annars verið að prjóna sokka fyrir hermenn í Úkraínu. Hópur kvenna kemur saman vikulega og prjónar. Og þótt tungumálin séu ólík gengur starfið og samveran vel.

„Ég byrjaði að hjálpa einni konu. Svo sá ég að allar hinar höfðu ekkert að gera. Þannig að ég leitaði til handavinnuhópa á Facebook og fékk garn hjá þeim,“ segirBirgit Raschhofen.„Svo bara valt boltinn og hefur oltið áfram og nú er þetta bara orðið svona. Fullt af fyrirtækjum og konum sem hafa styrkt okkur. Það er eina aðferðin sem við höfum til að láta þetta ganga.“

Nota Google-translate

„Það er bara hlegið. Svo er Google-translate. Svo erum við með túlk. Hún heitir Oleana og hún er læknir. Hún vinnur í býtibúri því hún fær ekki vinnu sem læknir á Íslandi en hún er frábær túlkur.“

Prjónaverkefnin eru af ýmsu tagi en verkefnið sem unnið er að núna á að ylja úkraínskum hermönnum. Oleana Archievska, sem vann sem sóttvarnalæknir í heimalandi sínu, segir þetta framtak, að koma saman og prjóna, hafa fært úkraínsku konunum hugarró.

„Nú vinnum við að því góða verkefni að prjóna sokka fyrir úkraínska herinn og vikurnar á undan elduðum við úkraínska súpu. Þarna getur fólk tengst og myndað sambönd,“ segir Oleana.

„Núna erum við búnar að vera í mánuð bara að safna lopa. Bara fyrir sokka, húfur og vettlinga, sem þær ætla að senda heim. Sumar ætla að senda til vina, sem geta farið með til hersins. Það er bara það sem við erum að gera núna í augnablikinu,“ segir Birgit.

Að hittast og stunda hannyrðir er kærkomin hvíld frá stríðsfréttum frá heimalandinu. Birgit segir margar kvennanna vera miklar hannyrðakonur.

„Hérna fá þau uppbyggilegan félagsskap og eru í góðum hópi. Geta fengið sér kaffi og alls konar. Sumar þurfa stundum að gráta og þá bara gráta þær, það er allt í lagi. En sumar þurfa faðmlag. Svo er einn karlmaður sem hefur komið til okkar, en þeir eru allt of fáir.“