„Er bara beðið eftir því að við pökkum saman og förum?“...

Rekstur Grímseyjarferjunnar verður brátt boðinn út, sem gerir að verkum að bókunarkerfið nær ekki lengra en fram í apríl á næsta ári. Ferðaþjónustuaðili á svæðinu segir það ólíðandi á þessum háannatíma í bókunum. Fyrirspurnir fyrir árið 2024 þegar komnar

Halla Ingólfsdóttir, ferðaþjónustuaðili í Grímsey og Grímseyingur, segir áhrifa þegar farið að gæta. Henni hafi borist mikið af pósti frá ferðamönnum sem eru að reyna að bóka Grímseyjarferðir eitt og tvö ár fram í tímann, án árangurs.

„Síðastliðin ár hefur þetta tímabil núna og fram að áramótum komið inn stærstu bókanir fyrir næsta ár og það er þegar komnar fyrirspurnir fyrir 2024 en við biðjum alla vega um að það sé hægt að bóka ár fram í tímann, það er eiginlega lágmark.“

„Hver er pólitískur vilji að hafa byggð hér í framtíðinni?“

Með þessu finnst henni verið að bregðast ferðaþjónustuaðilum og íbúum eyjunnar. „Mér finnst þetta bara ekki boðlegt, á sama tíma og Grímsey er flokkuð sem brothætt byggð og það er verið að berjast fyrir því að reyna að efla og styrkja byggðina hérna, það sér það hver einasti maður að það er bara grunnforsenda fyrir að við getum eflst og styrkst, það eru samgöngur. Hver er pólitískur vilji að hafa byggð hér í framtíðinni? Er það einhver? Eða er bara beðið eftir því að við pökkum saman og förum?“

Breytingar ekki í sjónmáli

Hún leggur til að bókunarkerfið verði óháð rekstraraðila ferjunnar. Það segir G. Pétur Matthíasson, forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðarinnar, frekar óeðlilega framkvæmd.„Ég sé það nú ekki fljótu bragði að við breytum þessu en það er auðvitað sjálfsagt að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni.Við held ég séum bara alltaf að reyna að reka þetta almenningssamgöngukerfi eins vel og við getum og sem hnökralaust eða það er ekki alltaf einfaldar leiðir í því,“ segir hann.