Segir eftirlit með fíkniefnainnflutningi ekki nógu gott...

16 eru í gæsluvarðhaldi vegna fíkniefnainnflutnings til landsins í gegnum flugstöð Leifs Eiríkssonar. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur áhyggjur af þróuninni í þessum málaflokki og segir að efla þurfi eftirlit með fíkniefnainnflutningi til muna, sérstaklega við hafnir landsins. 46 hafa verið teknir við fíkniefnainnflutning í flugstöðinni frá áramótum. Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir flesta þeirra tengjast skipulagðri brotastarfsemi. Ekki sé hægt að veita nánari upplýsingar þar sem málin séu til rannsóknar og upplýsingar því viðkvæmar.

Úlfar segir lögregluna vinna mál af þessu tagi í góðu samstarfi við starfsmenn Tollsins á flugvellinum. Lögreglan á Suðurnesjum hefur áhyggjur af stöðunni í málaflokknum. Mikill tími fer í vinnslu málanna og Úlfar segir það hafa áhrif á rannsóknir annarra mála hjá embættinu.

„Og allt kostar þetta peninga þegar það vantar fleira fólk.“

Hann hefur miklar áhyggjur af fíkniefnainnflutningi og tollaeftirliti á landsvísu.

„Mín tilfinning er að eftirlit með innflutningi fíkniefna sé ekki nægilega gott, fyrir utan flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þá á ég við hafnir landsins.“

Úlfar segist tengja aukinn innflutning á fíkniefnum í gegnum flugstöðina síðustu misseri við upptöku lögreglu á tæplega hundrað kílóum af kókaíni nýverið.

„Ég held að sá skortur hafi haft áhrif á innanlandsmarkað hér á landi.“