Erfa ekki afa þótt faðir þeirra hafi verið rangfeðraður...

Landsréttur staðfesti nýverið úrskurð Héraðsdóms Vesturlands þess efnis, að tvær konur séu ekki lögerfingjar látins manns, sem þær segja að hafi verið afi þeirra.  Faðir kvennanna lést árið 2006 og kenndi sig aldrei við umræddan mann, en að undangenginni lífsýnarannsókn eru taldar minnst 99% líkur á að faðir kvennanna hafi í reynd verið óskilgetinn sonur mannsins.

Þrátt fyrir það teljast konurnar tvær ekki lögerfingjar mannsins í lagalegum skilningi og því eiga þær ekki tilkall til dánarbús hans, eins og sjö raunverulegir lögerfingjar sem stefna kvennanna beindist gegn.

Röð málaferla

Forsaga málsins er nokkuð flókin. Maðurinn, hvers dánarbú málið hverfist um, lést árið 2017 og var bú hans tekið til opinberra skipta í byrjun árs 2018. Föðuramma kvennanna, sóknaraðilanna, höfðaði mál árið 2016 til vefengingar á faðerni þeirra. Sú niðurstaða fékkst að maðurinn sem lést árið 2006 hafi ekki verið sonur þess manns sem hann var kenndur við heldur sonur einhvers annars. Til grundvallar þess úrskurðar var meðal annars mannerfðafræðileg rannsókn sem þótti staðfesta að umræddur maður hafi verið faðir föður kvennanna. Amma kvennanna höfðaði þá annað mál, sem gekk lengra en hið fyrra, og snerist um að umræddur maður hafi í reynd verið afi kvennanna. Amman lést þó aðeins tveimur dögum eftir síðari málshöfðunina og Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að lagaskilyrði skorti til þess að dánarbú hennar tæki við aðild að málinu.

Í byrjun árs 2018 höfðuðu því konurnar tvær mál á hendur lögerfingjum mannsins, sem þær töldu fullvíst að hafi verið faðir föður þeirra, og kröfðust þess að það yrði viðurkennt fyrir dómstólum. Því máli lauk með niðurstöðu Hæstaréttar að konurnar uppfylltu ekki skilyrði barnalaga til að eiga aðild að málinu.

Greiða lögerfingjum málskostnað

Og þá kemur að því máli sem Landsréttur úrskurðaði nýverið um. Í því máli reyndu konurnar tvær að fá staðfest að þær væru sonardætur mannsins sem lést 2017 með vísan til mannerfðafræðilegu rannsóknarinnar.

Í úrskurði Landsréttar segir að það liggi fyrir að maðurinn sem lést árið 2017 hafi aldrei viðurkennt faðerni sitt gagnvart manninum sem lést árið 2006, föður kvennanna tveggja. Þá liggur einnig fyrir að sá maður nýtti ekki lögbundinn rétt sinn til þess að höfða faðernismál gagnvart manninum sem lést 2017, þrátt fyrir vitneskju um að sennilega væri hann rangt feðraður. Í barnalögum segir að persónubundinn réttur manns, til þess að skera úr um faðerni sitt, færist ekki til niðja hans að honum látnum.

Auk þess hafi aldrei verið úrskurðað formlega fyrir dómi um að maðurinn sem lést árið 2006 og maðurinn sem lést árið 2017 séu feðgar. Því geti niðjar mannsins sem lést árið 2006, konurnar tvær, ekki talist lögerfingjar mannsins sem lést árið 2017 í lagalegum skilningi.

Samkvæmt þessu var áðurnefndur úrskurður Héraðsdóms Vesturlands staðfestur og konunum tveimur gert að greiða lögerfingjum mannsins, sem þær halda fram að sé afi sinn, 40 þúsund krónur á mann.