Gætu þurft að skerða heitt vatn á köldum dögum...

Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna segir hitaveitur víða um land komnar að þolmörkum og ef veturinn verði kaldur gæti þurft að skerða heitt vatn til íbúa höfuðborgarsvæðisins. Á höfuðborgarsvæðinu er spáð að hitaveitueftirspurn gæti tvöfaldast á næstu 40 árum.  „Við höfum áhyggjur af því að hitaveitur víða um land eru komin að þolmörkum varðandi að geta svarað því sem við getum kallað afltoppum eða köldustu dögum ársins. Í rauninni erum á mörgum stöðum á landinu komin á þann stað að uppsett afl í rauninni ræður ekki við aukna eftirspurn sem er í kortunum næstu árin,“ segir Sólrún.

Sólrún segir að Veitufyrirtækin á Selfossi og Norðurlandi glími við sömu vandamál. Samorka segir að notkun á heitu vatni hafi farið vaxandi ár frá ári, það megi meðal annars skýra með fólksfjölgun og fleiri ferðamönnum. Þá búi færri oft á tíðum í stærra húsnæði en fyrr á árum.

Eftirspurn tvöfaldast á 40 árum

„Við erum núna að sjá að á okkar veitusvæði er spáð 2,4% vexti á ári. Sem þýðir að hitaveitueftirspurnin hjá okkur er að tvöfaldast til ársins 2060.“Og vísar Sólrún þá í veitusvæði höfuðborgarsvæðisins. „Það er ekki í hendi hvernig við ætlum að leysa vaxandi eftirspurn.“

Til að mæta eftirspurn segir hún þurfa að virkja ný jarðvarmasvæði eða nýta betur þau sem eru til staðar og hvetja fólk og fyrirtæki til að fara betur með auðlindina.„Það telja kannski flestir að orkuskiptum sé lokið þegar kemur að hitaveitumálum en við erum með risastórt verkefnifram undaní orkuöflun til þess að standa undir aukinni eftirspurn.“

Gætu þurft að biðja fólk að fara vel með

Sólrún segir búið að nýta ódýrustu orkukostina, eftir standi svæði sem gefa ekki jafn vel, eru lengra frá og krefjast lengri lagnaleiða eða betri tækni.

Fyrirhugaðar framkvæmdir hjá Veitum hafa tafist vegna stríðsins í Úkraínu og tafa í aðfangakeðjunni.„Við náðum ekki að innleiða allar þær lausnir sem við erum með í pípunum fyrir komandi vetur. Það gæti alveg verið hér á höfuðborgarsvæðinu ef þetta verður mjög kaldur vetur að við þyrftum að skoða skerðingar þá á stórnotendur eða eitthvað annað, biðja fólk um að fara vel með, lækka í ofnum,láta ekki renna í heitapottana yfir köldustu dagana, það gæti alveg komið til þess.“