Bjartsýnn á að samkomulag náist um endurbætur á Hlíð...

Forstjóri Heilsuverndar kveðst bjartsýnn á að úr leysist varðandi endurbætur á húsnæði dvalarheimilisins Hliðar á Akureyri. Mygla hefur greinst á Hlíð sem talin er hafa valdið veikindum hjá heimilisfólki þar. Jákvæð teikn á lofti eftir fundarhöld

Rúm vika er liðin frá því fréttir birtust af myglu í húsnæði dvalarheimilisins Hliðar. Húsið er í eigu ríkisins og Akureyrarbæjar, en Heilsuvernd tók við starfseminni á Hlíð af Akureyrarbæ árið 2021.Fram hefur komið að heilbrigðisráðuneytið hafi vitað af myglunni í fjóra mánuði og ráðuneytið og bærinn hafa bent hvort á annað varðandi úrbætur. Þar virðist nú sem jákvæð teikn séu á lofti eftir fundarhöld í gær og dag.

Sameiginlegur skilningur á að bregðast þurfi hratt við

Teitur Guðmundsson, forstjóri Heilsuverndar, segir að fundur með heilbrigðisráðuneytinu í morgun hafi verið árangursríkur. „Við náttúrulega ítrekuðum og komum skilmerkilega á framfæri okkar skoðun á því hvernig ferlið hefur verið og hvað við teljum að þurfi að gera. Og það virðist vera nokkuð sameiginlegur skilningur á því að það þurfi að bregðast við og því fyrr því betra. Það er núna í vinnslu.“

Vilja nákvæmsvör um hvernig málið verði unnið

Teitur segir að ekki standi til að Heilsuvernd taki að sér á einhverjum tímapunkti að sjá um endurbætur. Eðlilegt sé að húseigendur geri það og beri ábyrgð á að húsnæðið sé í lagi. „Ég vil bara ítreka að það er mjög gott samtal og samstarf milli aðila og það finnst mér gott. Við auðvitað pressum engu að síður á að það komi svör og það komi tímalínur og það komi nálgun um hvernig málið verði unnið. Það er það sem við bíðum etir núna.“