Grát­legt tap gegn Ung­verjum í Kristian­stad...

Íslenska karlalandsliðið í handbolta mátti þola tap gegn Ungverjalandi í öðrum leik sínum í riðlakeppni HM í kvöld. Eftir að hafa leitt í hálfleik með fimm mörkum enduðu Strákarnir okkar á að glutra niður forystunni og töpuðu að lokum 30-28

Jafnræði var með liðunum til að byrja með og eftir fyrstu tíu mínútur leiksins var Ísland með eins marks forystu, 7-6 og hafði Bjarki Már Elísson farið fremstur meðal jafningja hvað markaskorun varðar með heil fjögur mörk.

Strákarnir okkar reyndust sterkari á næstu tíu mínútunum, Björgvin Páll fór að verja bolta og Aron Pálmarsson hlóð í sín kraftmiklu fallbyssuskot. Íslenska landsliðið náði að koma bilinu milli sín og Ungverja í fjögur mörk, 12-8.

Leikmenn Íslands héldu pressunni á Ungverjum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og fóru að lokum inn til búningsherbergja í hálfleik með fimm marka forystu, 17-12.

Bjarki Már Elísson var atkvæðamestur í markaskorun hjá Íslandi í fyrri hálfleik með fimm mörk, Ómar Ingi fylgdi honum fast á eftir með fjögur mörk, Aron og Sigvaldi Björn skoruðu síðan þrjú mörk hvor. Þá varði Björgvin Páll sjö skot í fyrri hálfleik.

Strákarnir okkar hömruðu járnið á meðan að það var heitt og komu vel stemmdir inn í síðari hálfleik og á fyrstu mínútum var bilið á milli þeirra og Ungverja orðið sex mörk, 20-14. Ungverjar svöruðu þó fyrir sig í kjölfarið og minnkuðu bilið niður í fjögur mörk, 23-19.

Íslenska liðið fékk vænar stöður til þess að breikka bilið á nýjan leik á þessum tímapunkti en sóknarleikurinn tók að hiksta og sömuleiðis varnarleikurinn. Ungverjar gengu á lagið og náðu að minnka muninn niður í tvö mörk, 25-23.

Þegar rétt rúmar sjö mínútur lifðu leiks náðu Ungverjar að minnka muninn niður í eitt mark, 28-27 og loks að jafna leikinn í stöðunni 28-28. Leikmenn Íslands voru að gera of marga tæknifeila og það kom í bakið á liðinu.

Ungverjar komust yfir síðan einu marki yfir í fyrsta skipti í langan tíma í leiknum þegar fjórar mínútur eftir lifðu leiks og komu forystu sinni í tvö mörk og svo fór að Ungverjar sigldu heim 30-28 sigri.