Rekin fyrir að vera óbólu­sett og fær bætur frá mötu­neytinu...

Konu sem sagt var upp störfum hjá Mötuneyti Menntaskólans á Akureyri í nóvember 2021 vegna þess að hún afþakkaði bólusetningu gegn Covid-19 segist þakklát fyrir að málinu sé loks lokið. Aðalmeðferð málsins fór fram í Héraðsdómi Norðurlands eystra á fimmtudaginn. Málinu lauk með dómsátt en Mötuneytið féllst á að ljúka málinu með því að greiða konunni miska- og skaðabætur.

Konan og eiginmaður hennar segja málið hafa tekið verulega á, bæði andlega og líkamlega og því sé niðurstaðan mikill áfangasigur. Málið hafi legið þungt á fjölskyldunni í rúma þrettán mánuði.

Konan fékk uppsagnarbréf fyrir yfirmanni sínum í lok nóvember 2021 en þar segir: „Ástæða uppsagnar er að ég tel of áhættusamt að hafa óbólusettan einstakling í vinnu á stað eins og mötuneytið er. Er ég þarf að hugsa um hag einstaklinga sem eru í okkar umsjá og einnig hag annarra starfsmanna.“

Lét í ljós óánægju sína

Aðdraganda málsins má rekja til utanlandsferðar sem konan fór í haustið 2021. Þegar hún kom í vinnu að loknu fríi spurði framkvæmdastjóri mötuneytisins hvernig hún hefði þurft að haga sér með tilliti til sóttvarna við heimkomu. Konan tjáði honum að hún hefði þurft að vera í fimm daga sóttkví við heimkomu og varð framkvæmdastjóranum ljóst að hún hefði ekki þegið bólusetningu og lét í ljós óánægju sína með það, að því er fram kemur í stefnu lögmanns konunnar.

„Um miðjan nóvember 2021 spurði framkvæmdastjóri stefnda, stefnanda í viðurvist annarra starfsmanna hvort að stefnandi hefði þegið bólusetningu sem hún svaraði neitandi og lét framkvæmdastjórinn þá orð falla um að stefnandi væri í mun meiri hættu á að smitast en þeir sem hefðu þegið bólusetningu. Eftir þetta var öllum samstarfsmönnum stefnanda kunnugt um að hún hefði ekki þegið bólusetningu,“ segir jafnframt í stefnunni.

Konan og eiginmaður hennar segja að eftir að framkvæmdastjóranum hafi verið ljóst að hún hafi verið óbólusett hafi hann lagt hana í einelti. Í bréfi sem sent var til stjórnarformanns félagsins 22. nóvember 2021 er óskað eftir aðgerðum vegna endurtekins eineltis. Af því hafi þó ekki orðið.