Tugir flug­liða segja upp hjá Play: „Hvað ­rétt­lætir þessi mánaðar­laun?“...

Mikil ókyrrð er meðal flugþjóna og flugfreyja hjá flugfélaginu Play og hafa tugir starfsmanna sagt starfi sínu lausu á síðustu vikum. Fréttablaðið hefur verið í sambandi við fjölmargar núverandi og fyrrverandi flugfreyjur og flugþjóna hjá félaginu síðustu daga og segja þau flest að reiði starfsmanna sé vegna þess að laun séu í engu samræmi við álag.

Fréttablaðið fékk einnig að sjá útborguð laun hjá einni flugfreyju en þau voru 289 þúsund krónur. „Við erum búin að vera að fljúga rosalega mikið og það er mikið keyrt á okkur en það er ekki að skila sér í launatékkann,“ segir flugþjónn sem vill ekki láta nafns síns getið.

Önnur flugfreyja sem sjálf sagði starfi sínu lausu telur að hátt í fjörutíu hafi sagt upp á síðustu tveimur mánuðum, þar á meðal tíu svokallaðar fyrstu freyjur. „Mikil starfsmannavelta fer á skjön við eðli starfsins,“ segir hún og býst við að fleiri séu að hætta um mánaðamótin.

Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins um fjölda uppsagna starfsmanna segir Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play, að ekki sé um mikinn fjölda að ræða miðað við stærð félagsins..

„Nokkrir flugliðar hafa vissulega sagt starfi sínu lausu á síðustu vikum. Þeir flugliðar gáfu upp ýmsar ástæður, til dæmis eru sumir á leið í nám, aðrir sem ákváðu að hverfa til annarra starfa og svo þeir sem eru að hefja störf hjá öðrum flugfélögum.Það er ekki óeðlilegt að það sé starfsmannavelta á svona stórum og vaxandi vinnustað en um 350 manns vinna nú hjá félaginu.“