
Ég á mér draum...
Flestir þekkja þessi fleygu orð Martin Luther King úr ræðu sem hann hélt árið 1963. Draumur hans var sá að þjóð hans myndi átta sig á því einn dag að allir væru skapaðir jafnir. Hann barðist fyrir réttlæti, fyrir mannréttindum svartra og gegn fátækt. Hann átti draum sem ekki hefur enn ræst.
Lítil börn á Íslandi eiga sér líka drauma. Þau eiga sér flest drauma um gott líf, falleg gull, ævintýri og kærleika. Sem betur fer rætast draumar margra ef ekki flestra. Sum börn hafa þó enga möguleika á að láta drauma sína rætast og þora jafnvel ekki að eiga sér drauma. Þetta eru ekki síst börnin sem alast upp við fátækt. Það eru um 10.000 börn á Íslandi eða 13,1% íslenskra barna. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Evrópuhóps Barnaheilla – Save the Children, TRYGGJUM FRAMTÍÐ BARNA: Hvernig Covid 19, aukin framfærslubyrði og loftslagsbreytingar hafa áhrif á börn sem alast upp í fátækt og hvað ríkisstjórnir í Evrópu þurfa að gera.
Þar kemur einnig fram að árið 2021 áttu tæplega eitt af hverjum fjórum íslenskum heimilum á Íslandi í erfiðleikum með að standa straum af daglegum útgjöldum og ná endum saman. Rúmlega helmingur þeirra heimila voru heimili einstæðra foreldra og 16,1% heimilanna voru heimili tveggja eða fleiri fullorðinna og barna. Meiri líkur eru að börn sem búa utan höfuðborgarsvæðisins búi við fátækt eða um 15,8% þeirra. Eitt af hverjum fimm börnum sem búa í leiguhúsnæði eiga á hættu að búa við fátækt og 8,2% þeirra búa við skort. Vísbendingar eru um að fátækt meðal barna á Íslandi sé frekar að aukast þar sem 12,7% barna áttu á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun árið á undan.
Börn bera enga ábyrgð á stöðu sinni, þau fæðast inn í aðstæður sem þau ráða engu um. Á Íslandi er framfærslubyrði barnafjölskyldna mun meiri en annarra fjölskyldna og stuðningur til að jafna stöðu barna ekki nægur. Börn sem búa hjá einstæðu foreldri eða í barnmörgum fjölskyldum eru samkvæmt skýrslunni í mestri hættu á að búa við fátækt eða félagslega einangrun.
Upprætum barnafátækt með hraði. Við getum það og eigum að gera það, því öll börn eiga rétt á að eiga drauma sem geta ræst.