Haldið uppi af pabba en keyrir um á fjór­tán milljóna króna bíl...

„Það verður að teljast alveg pínu óeðlilegt að pabbi hans sé að greiða svona fyrir hann á meðan hann keyrir um á fjórtán milljóna króna bifreið,“ sagði lögreglukona um Birgir Halldórsson, einn sakborninga í stóra kókaínmálinu, í skýrslutöku við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Hún var rannsakandi í málinu og sá meðal annars um fjármálagreiningu á Birgi auk greiningu á fjármálum Páls Jónssonar, eða Páls timbursala og Daða Björnssonar. Auk þess að vera ákærðir fyrir innflutning á tæpum hundrað kílóum af kókaíni eru fjórmenningarnir ákærðir fyrir peningaþvætti að samtals upphæð um 63 milljónum króna.

Lögreglukonan sagði Birgi með uppgefnar tekjur en að framfærsla hans og sambýliskonu hans væru langt undir viðmiðunarmörkum hvað matarinnkaup, daggæslu og slíkt varðaði. „Pabbi hans borgar töluvert mikið fyrir hann,“ sagði hún og tók lánin, fasteignagjöld og annað sem dæmi.