
„Þetta fólk hefur oftar en tvisvar sett heimilisfangið okkar inn á netið“...
„Ég sé ekki lengur ástæðu til þess að segja ekki neitt, ég væri búin að svara fyrir mig í öllum öðrum tilfellum. Eflaust hef ég ekki sagt neitt til að halda fólkinu í réttlætisbaráttunni góðu og verið hrædd við viðbrögðin,“ segir Alexandra Eir Davíðsdóttir sambýliskona og barnsmóðir Ingólfs Þórarinssonar eða Ingós veðurguðs.
Alexandra opnaði sig í einlægri Facebook-færslu í gær um umræðuna tengdri Ingó og sambandi þeirra og erfiðleikana sem henni hafa fylgt síðustu tvö til þrjú árin. Hún segir viðbrögðin við færslunni hafa verið góð og að henni hafi borist mörg falleg skilaboð í kjölfarið.
Ingó hefur verið mikið í umræðunni síðustu ár en hann var meðal annars sakaður um kynferðislegt ofbeldi. Hann hefur ítrekað vísað ásökunum á bug.
„Margir hafa bent mér á að láta þetta líða hjá og að reyna að telja upp á tíu. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef gert það en á endanum hverfur þolinmæðin. Mér finnst líklegt að flestir í minni stöðu væru löngu búnir að svara fyrir sig eða missa dampinn einhvers staðar á leiðinni,“ segir Alexandra í færslu sinni.
Alexandra segir fólk sem helgi lífi sínu í að berjast gegn ofbeldi og réttindum kvenna hafi endurtekið beitt hana ofbeldi á netinu og sumum tilfellum gengið svo langt að draga barnið þeirra einnig inn í umræðuna. „Undarleg hegðun af þeim sem telja sig gera heiminn að betri stað en réttlætanlegt af þeirra hálfu vegna þess að ég er maki einhvers. Öll hafa þau gert þetta á opinberum miðlum án þess að reyna fela það á nokkurn hátt.“