Vorglugganum lokað: „Ekki að sjá neinar breytingar eða hlýindi á næstunni“...

Séu vefmyndavélar Vegagerðarinnar skoðaðar nú í hádeginu má sjá að veðrið er allskonar á litla Íslandi. Það er snjór og leiðindi á báðum fjörðunum en Reykvíkingar keyrðu til vinnu á marauðum vegum vopnuðum nagladekkjum.

Áfram er búist við kulda á landinu næstu daga. Kaldar norðanáttir verða hér sveimandi yfir út vikuna og inn í helgina að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

„Það fer að kólna þegar það líður á vikuna og gengur á með einhverjum éljum á norðan- og austanverðu landinu. Það er dálítið vetrarlegt aftur eftir þennan vorglugga sem við fengum fyrir helgi. Það er ekki að sjá neinar breytingar eða hlýindi á næstunni,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Að hans sögn mega Íslendingar búa sig undir áframhaldandi frost næstu dagana.

„En spáin er að mestu úrkomulaust, þótt kuldinn virðist ætla að halda áfram eins langt og við sjáum í langtímaspánni okkar,“ segir Þorsteinn.

Vorinu hefur því verið slegið á frest í bili.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir úr vefmyndavélum Vegagerðarinnar um hádegisbilið.