Næstu skref tekin í sölu­ferli Manchester United...

Næstu skref í viðræðum um kaup á enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester United hafa nú þegar verið tekin. Fulltrúar þeirra kauptilboða sem Glazer-fjölskyldan íhugar nú, munu hitta forráðamenn Manchester United á Old Trafford á morgun.

Meðal þeira sem muni mæta á svæði eru fulltrúar tilboðsins sem hefur verið tengt við Katar. Þá muni fulltrúar Íslandsvinarins og breska auðkýfingsins Sir Jim Ratcliffe einnig mæta til Manchester.

Fresturinn til þess að skila inn tilboði í Manchester United rann út í síðasta mánuði. Tilboðs- og kaupferlið er í höndum Raine Group.

Í kjölfar fundanna á Old Trafford greinir Daily Mail frá því að líklegt sé að við taki tímabil þar sem lítið af upplýsingum fáist um þróun mála.

Fulltrúar þeirra sem eiga inni kauptilboð í félaginu munu fá aðgang að ýmsum tölulegum upplýsingum varðandi rekstur Manchester United til þess að fá betri mynd af félaginu.

Eins og er, er bara vitað um þau tvö tilboð sem talin hafa verið upp hér að ofan en talið er að tvö önnur tilboð séu einnig til staðar.