Peningar fyrir FIFA Points en ekki kókaíni...

„Ég sé ykkur,“ sagði ungur karlmaður er hann gekk úr dómsal í stóra kókaínmálinu í febrúar. Einn af sakborningum málsins svaraði um leið: „Sjáumst gamli.“

Á meðal vitna í málinu, sem fjölmiðlum var meinað að fjalla um á meðan vitnaleiðslur stóðu yfir, voru einstaklingar sem ákæruvaldið taldi að ætti í fjármálatengslum við sakborningana fjóra, líklega vegna meintra fíkniefnaviðskipta.

Þann sautjánda febrúar síðastliðinn mættu sjö slík vitni í Héraðsdóm Reykjavíkur. Þar af sögðust þrjú þeirra hafa keypt kókaín af einum sakborningnum. Hin fjögur nefndu aðrar ástæður fyrir millifærslum sínum til sakborninganna.

Peningar í fótboltatölvuleik

Til að mynda sagðist maður, sem hafði verið vinur eins aðila málsins í tíu ár, að ítrekaðar millifærslur til hans væru fyrir FIFA Points. Það er að segja gjaldmiðli sem er notaður í FIFA fótboltatölvuleikjunum, sem hægt er að kaupa fyrir alvöru pening og á að auka árangur manns í leiknum.

„Þetta eru bara FIFA Points,“ sagði hann.