Úti­lokað að segja hvort fleiri fylgi for­dæmi um verð­lækkun...

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) segist ekki geta sagt til um hvort einhver aðildarfyrirtæki samtakanna lækki verð á vörum sínum og þjónustu í þeim tilgangi að stemma stigu við verðbólgu hérlendis.

Fyrirtækið Bestseller tilkynnti í gær að verð yrði lækkað um tíu prósent í mars í viðleitni til að hemja verðbólguna. Bestseller rekur fataverslanirnar Vero Moda, Jack & Jones, VILA, Selected og Name It.

„Það er okkar skoðun að allir verði að leggja sitt af mörkum til að draga úr verðlagshækkunum og hægja á þeirri verðlagsþróun sem við höfum séð undanfarna mánuði. Við skorum á önnur fyrirtæki að gera slíkt hið sama,“ var haft eftir Hrefnu Lind Heimisdóttur, framkvæmdastjóra Bestseller, í tilkynningu.

„Þegar kemur að verðlagningu vöru er það algjörlega ákvörðun hvers fyrirtækis fyrir sig,“ segir Andrés. „Við verðum að gæta okkar mjög í opinberri umræðu um þessi mál til að gefa ekki til kynna að við séum að leiðbeina fyrirtækjum um verðlagninguna, það megum við ekki gera.“