
Villtavestursástand í komugjöldum á læknastofum...
Villtavestursástand ríkir á einkareknum læknastofum þegar kemur að svokölluðum komugjöldum. Gjöldum sem flestir sérgreinalæknar innheimta vegna þess að ekki hafa náðst samningar við Sjúkratryggingar. Þessi gjöld eru utan við greiðsluþátttökukerfi ríkisins, eru afar mishá og eru í fæstum tilvikum sýnileg á vefsíðum stofanna.
Flestar stofur rukka fast gjald fyrir viðtöl við lækna. Þá eru einnig rukkuð aukagjöld ofan á gjöld fyrir ýmsar aðgerðir eða þjónustu sem stofurnar veita. Þessi gjöld geta hlaupið á tugum þúsunda króna og sjúklingar vita ekki alltaf af þeim fyrr en í lok læknisheimsóknar. Á einni stofunni sem Fréttablaðið hafði samband við símleiðis, vegna þess að ekki fundust upplýsingar á netinu, fengust þau svör að gjöldin væru á bilinu 500 til 27 þúsund krónur.
„Það má segja að þetta sé villta vestrið,“ segir Emil Thoroddsen, framkvæmdastjóri Gigtarfélags Íslands. Hann segir að þessi gjöld leggist þyngst á sinn hóp, fólk með stoðkerfisvanda og gigtarsjúkdóma. Ekkert líffæri mannsins sé óhult fyrir gigt og því þurfi þessir sjúklingar að leita til margra sérgreinalækna. Sjálfur fer hann á bilinu sex til átta sinnum til læknis á ári og er hjá sjúkraþjálfara vikulega, en þeir innheimta einnig komugjöld.