
Ógn stafi af manni sem er grunaður um þrettán sprengjuhótanir...
Landsréttur staðfesti á þriðjudag gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness yfir manni sem sendi sprengjuhótun á netfang Reykjanesbæjar sem beindist að ráðhúsi bæjarins í lok febrúar.
Maðurinn hefur ítrekað sent sprengjuhótanir ásamt því að hafa komið fyrir sögu lögreglu í á annað hundrað skipta, meðal annars vegna þrettán sprengjuhótana á síðustu tveimur árum.
Lögreglan telur mikla ógn stafa af manninum og að engin önnur úrræði en gæsluvarðhald sé fullnægjandi á meðan mál hans eru tekin fyrir. Gæsluvarðhaldið nær til fimmtudagsins 30. mars.
Í úrskurði héraðsdóms segir að maðurinn sé talinn hafa komið fyrst til landsins árið 2017 en hann sótti um alþjóðlega vernd sama ár sem hann hlaut árið 2018. Tólf málum gegn manninum er enn ólokið í kerfinu fyrir tímabilið 2022 til 2023 en hann hefur áður hlotið dóma.