
Óskarsakademían sagði nei við Selenskíj...
Volodímír Selenskíj, forseti Úkraínu, mun ekki flytja ávarp á Óskarsverðlaunahátíðinni á sunnudagskvöld.
Selenskíj hefur fengið að ávarpa hinar ýmsu verðlaunahátíðir að undanförnu þar sem hann hefur talað fyrir mikilvægi þess að þjóðir heimsins sýni Úkraínu stuðning vegna innrásar Rússa.
Variety greinir frá því – og hefur eftir heimildarmönnum sínum – að umboðsmaðurinn Mike Simpson, fyrir hönd forsetans, hafi farið þess á leit við Óskarsakademíuna að hann fengi að ávarpa hátíðina. Herma heimildir Variety að akademían hafi ákveðið að hafna þessari beiðni.
Í frétt Variety er þess getið að þetta sé í annað sinn sem akademían hafnar Úkraínuforseta en hún gerði það einnig í fyrra.
Umboðsmaðurinn Mike Simpson sér um mál Aaron Kaufman en hann var meðleikstjóri heimildarmyndar um Selenskíj ásamt leikaranum Sean Penn. Penn og Kaufman hafa kallað eftir því að bandarísk stjórnvöld veiti Úkraínu ríkari stuðning í stríðinu gegn Rússum.