Ó­þefur...

Í vikunni blossaði hann upp enn eina ferðina. Óþefurinn af nokkurra ára gömlum glórulausum ákvörðunum stjórnar Sorpu. Þar sem sjö milljörðum af peningum skattgreiðenda var beinlínis sólundað í tæki sem áttu að sjá um rusl, en reyndust vera drasl. Þið skiljið.

Nýjasti kaflinn í þessari harmsögu úrgangs á höfuðborgarsvæðinu er að nú eigi að loka blessaðri þriggja ára gömlu flokkunarstöðinni í Álfsnesi.

Henda henni á haugana. Í nokkrum handhægum heimatökum innan girðingar.

Eflaust mætti hafa gaman af kaldhæðni slíkra örlaga, ef ekki væri fyrir þá staðreynd að búnaðurinn, sem reyndist ónothæfur frá upphafi, kostaði íbúa höfuðborgarsvæðisins ríflega einn milljarð króna.

Þeim peningum verður nú fargað. Vegna þess að nokkrir pólitíkusar í stjórnarstólum ákváðu að hunsa ráðleggingar sérfræðinga og taka illa ígrundaðar ákvarðanir.

Þetta hefur núverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins meira að segja staðfest og sagt að fjárfestingin hafi verið með öllu óskiljanleg.

Höfum líka í huga að þessi milljarður bætist ofan á allt havaríið og klúðrið í kringum GAJU. Gas- og jarðgerðarstöðina sem fór einn og hálfan milljarð fram úr áætlun, kostaði á endanum fimm komma sex milljarða en lúrir nú ónothæf í mygluðu húsnæði þétt upp við umrædda flokkunarstöð.

Þar standa þær nú saman þessar tvær stöðvar. Á haugunum. Eins og veglegir minnisvarðar um afglöp þeirra sem sífellt sækjast eftir ábyrgðarstöðum, en bera svo auðvitað enga ábyrgð þegar til kastanna kemur.

Ekki einu sinni þegar almenningur fer að klóra sér í höfðinu yfir öllum óþarflega háu gjöldunum sem óhjákvæmilega fylgja vondum ákvörðunum.

Þannig greiðum við nefnilega úr vitleysisgangi í opinberum rekstri á Íslandi. Með einföldum bakreikningum inn um bréfalúgur íbúanna. En horfum svo fram hjá þeim sem eiga að bera ábyrgð á dellunni. Þeir sitja alltaf sem fastast. Hvað sem á dynur.

Kannski er það bara heppilegasta fyrirkomulagið. Einhver þarf jú að manna alla fundina. Borða snitturnar, þiggja launin og taka fleiri ákvarðanir um hluti sem þeir hafa ekki hundsvit á. Þetta klúðrar sér ekki sjálft, sjáiði til. Einhver þarf að gera það.

Eða eins og einn þaulreyndur sveitarstjórnarmaður sagði eitt sinn þegar hann var spurður út rugl í rekstri fyrirtækja á forræði sveitarfélaga:

„Byggðasamlag er það sem gerist þegar nokkur sveitarfélög koma sér saman um að fara illa með peninga og veita lélega þjónustu.“