„Stað­reyndin er að há­skólann vantar milljarð núna“...

„Þetta markar endi átaks Stúdentaráðs sem hefur staðið alla vikuna og ber yfirheitið Háskólann vantar milljarð,“ segir Rebekka Karlsdóttir forseti Stúdentaráðs en í dag gengu háskólastúdentar fylktu liði frá byggingum háskólans og að ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu þar sem þau afhentu ráðherrum ítarlega samantekt á sjónarmiðum Stúdentaráðs og áhrifum undirfjármögnunarinnar á stúdenta, sem og samfélagið allt.

„Staðreyndin er að háskólann vantar milljarð núna. Það er það sem hann vatnar núna en því til viðbótar er meiri niðurskurður boðaður í fjármálaáætlun næsta árs og við erum að vekja athygli á því í tengslum við umræðu um hækkun skrásetningargjaldsins. Við erum að benda á að það er verið að leita dýpra í vasa stúdenta því stjórnvöld eru ekki að sinna skyldu sinni við að fjármagna opinbera háskóla,“ segir Rebekka og að Stúdentaráð telji það ekki standast lög að rukka stúdenta fyrir þá kostnaðarliði sem nú er verið að gera.