Verðlaunamynd um ofsóknir gegn hinsegin fólki í Tsjetsjeníu...

Bíó Paradís í samstarfi við Samtökin ‘78 og mannréttindahópinn NC SOS stendur fyrir sýningu á heimildarmyndinni Welcome to Chechnya sunnudaginn 12. mars klukkan 16.30. Lucy Shtein, einn meðlima Pussy Riot, er einn skipuleggjenda en hún hefur ásamt kærustu sinni Mariu Alyokhina barist fyrir réttindum hinsegin fólks í Rússlandi og víðar.

„Við erum að halda sýningu og spurt og svarað með David Isteev sem er baráttumaður fyrir mannréttindum og leiðir mannréttindahópinn NC SOS Crisis group sem ég starfa einnig fyrir. Við hjálpum LGBTQ-fólki að flýja rússneska norðurhluta Kákasus, sérstaklega Tsjetsjeníu, þar sem það er ofsótt, pyntað og drepið,“ segir Lucy.