Tíma­lengd samningsins helsta á­hyggju­efni sjó­manna...

Bergur Þorkelsson, formaður Sjómannafélags Íslands, segir það ekki hafa komið á óvart að kjarasamningur við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafi verið felldur. Nokkur atriði hafi orðið þess valdandi að sjómenn hafi hafnað samningnum.

„Það var tímalengd samningsins, veiking slysa og veikindaréttar. Það má nefna breytingar á texta í grein um ný skip og breytt skip,“ segir Bergur í samtali við Vísi. Auk þess hafi skiptaprósenta verið lækkuð til þess að fá mótframlag í lífeyrissjóð upp á 3,5 prósent.

Að sögn Bergs var það þó helst tímalengd samningsins sem hafi ollið flestum sjómönnum miklum áhyggjum.

„Það kveikti á varúðarperum hjá mörgum þegar þeir sáu tímalengdina. Þá bara stoppuðu menn strax við og fóru að hugsa að þetta væri ekki í lagi. Vegna þess að ef það gerist eitthvað á þessum tíma, þá geturðu ekki gripið inn í,“ segir Bergur. Það síðastnefnda eitt og sér hafi fellt samninginn.