Katrín segir flokka á Ís­landi fasta í gömlum skot­gröfum...

Katrín Jakobsdóttir, forsætirsáðherra, gagnrýndi aðra stjórnmálaflokka þegar kemur að sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum í ræðu sinni á landsfundi Vinstri Grænna sem hófst rétt í þessu á Akureyri.

Katrín fór um víðan völl í ræðunni og ræddi meðal annars nýlegt útlendingafrumvarp sem vakti mikla athygli í vikunni.

Þegar hún fór að ræða auðlindir Íslendinga og að tryggja sjálfbæra nýtingu þeirra skaut Katrín á aðra þingflokka.

„Auðlindanýting á Íslandi hefur fyrir löngu sannfært mig um mikilvægi þess að í stjórnarskrá verði ákvæði sem undirstriki sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum okkar og tryggi sjálfbæra nýtingu þeirra. Að nýtingarheimildum verði úthlutað með gagnsæjum hætti, þar sem jafnræðis verði gætt og tryggt verði eðlilegt gjald. Eins að umhverfis- og náttúruvernd og almannaréttur verði tryggð í stjórnarskrá. En því miður eru stjórnmálaflokkar á Íslandi fastir í gömlum skotgröfum,“ sagði Katrín og hélt áfram:

„Þeir sem vilja aðeins og eingöngu drög stjórnlagaráðs í þeirri mynd sem meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar skilaði þeim af sér í mars 2013. Og hinir sem vilja helst engar breytingar og gleðjast yfir ósveigjanleika hinna fyrrnefndu. Við Vinstri-græn erum fyrir löngu búin að segja að við viljum breyta stjórnarskrá í áföngum því við vitum að á þessu máli er engin einföld lausn. Og ég mun gera aðra atlögu að því að leggja fram slíkar breytingar á þessu kjörtímabili og vona að einhverjir fleiri flokkar en síðast treysti sér til að koma í þá vegferð með okkur.“

Þá ræddi Katrín á staðreynd að fylgi VG hefur legið niður á við í skoðunarkönnunum en virtist ekki hafa miklar áhyggjur af því.

„Það er alltaf hætta á þreytu þegar flokkar hafi verið lengi við stjórnvölinn. Við liggjum lágt í skoðanakönnunum og finnum að mótvindurinn um þessar mundir er allnokkur. Ég hef hins vegar verið félagi í þessari hreyfingu ansi lengi – eða 21 ár – og ef ég þekki okkur rétt látum við mótvindinn ekki buga okkur. En í mótvindi getur verið gott að staldra við og leggja nýtt mat á stöðuna, finna bestu leiðina fram á við og halda svo ótrauð áfram.“