Fimm frábærar kvikmyndir eftir konur...

Þetta vorið er tileinkað kvikmyndagerðakonum og sýnir RÚV fjölbreytt úrval kvikmynda undir heitinu Konur í kvikmyndagerð. Finna má fjöldan allan af frábærum kvikmyndum sem gerðar eru af konum í spilara RÚV. Menningarvefur hefur tekið saman lista yfir nokkrar þeirra sem hægt er að hámhorfa á yfir páskana.Konur í kvikmyndagerðBresku heimildarþættirnir Women Make Film skoða kvikmyndasöguna í gegnum linsu kvikmyndagerðakvenna. Þættirnir skiptast í 40 kafla sem taka fyrir ólíkar hliðar kvikmyndagerðar og eingöngu er stuðst við dæmi úr kvikmyndum sem konur leikstýra.Sögukonur eru Tilda Swinton, Jane Fonda, Debra Winger, Adjoa Andoh, Kerry Fox, Thandie Newton og Sharmila Tagore.OrlandoKvikmyndin Orlando frá árinu 1992 er í leikstjórn Sally Potter og er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Virginiu Woolf. Orlando er ungur aðalsmaður sem fær stórt landsvæði og rausnarlega peningagjöf frá Elísabetu I Englandsdrottningu með því skilyrði að hann eldist ekki. Hann verður við því og lifir í nokkrar aldir. Í gegnum ævina ferðast hann milli kynja og kyngervis sem hefur mikil áhrif á alla hans tilveru.Með aðalhlutverk fara Tilda Swinton, Billy Zane og Quentin Crisp.TryggðTryggð er íslensk kvikmynd byggð á skáldsögunni Tryggðarpantur eftir Auði Jónsdóttur og leikstýrð af Ásthildi Kjartansdóttur. Til að ná endum saman fær Gísella Dal tvær konur til að leigja hjá sér. Fyrst um sinn gengur sambúðin vel en með tímanum fara menningarárekstrar að ógna valdi Gísellu, geði hennar og sjálfsmynd.Með aðalhlutverk fara Elma Lísa Gunnarsdóttir, Enid Mbabazi, Raffaella Brizuela Sigurðardóttir og Claire Harpa Kristinsdóttir.Sprengjusveitin – Hurt LockerÓskarverðlaunamyndin Hurt Locker, eða Sprengjusveitin, hlaut einróma lof gagnrýnenda þegar hún kom út árið 2008. Myndin gerist í Íraksstríðinu og fjallar um sprengjuleitarlið á vegum Bandaríkjahers. William James liðþjálfi er skipaður nýr leiðtogi liðsins og undirmenn hans eiga erfitt með að venjast vinnubrögðum hans sem þeim finnst kæruleysisleg og hættuleg. Þegar William lendir hins vegar í bráðri hættu sjá mennirnir loks hvaða mann hann hefur að geyma.Kathryn Bigelow leikstýrir Sprengjuleitinni og með aðalhlutverk fara Jeremy Renner, Anthony Mackie og Brian Geraghty.VillibráðVillibráð er íslensk kvikmynd frá 2023 í leikstjórn Elsu Maríu Jakobsdóttur. Í matarborði í Vesturbænum ákveða sjö vinir að fara í stórhættulegan samkvæmisleik. Viðstaddir leggja símana á borðið og fallast á að öll símtöl og skilaboð sem berast verði deilt með samkomunni til að sanna að ekkert þeirra hafi nokkuð að fela.Með aðalhlutverk fara Hilmir Snær Guðnason, Nína Dögg Filippusdóttir, Gísli Örn Garðarsson, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Björn Hlynur Haraldsson, Aníta Briem og Hilmar Guðjónsson.Agnes JoyKvikmyndin Agnes Joy í leikstjórn Silju Hauksdóttur kom út árið 2019 og segir frá hinni útbrenndu Rannveigu. Hún stendur á persónulegum tímamótum samhliða því að eiga í basli með táningsdóttur sína. Líf mæðgnanna breytist skyndilega þegar aðkomumaður að sunnan flytur í þorpið.Með aðalhlutverk fara Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Donna Cruz, Þorsteinn Bachmann og Björn Hlynur Haraldsson.Fleiri stórskemmtilegar myndir gerðar af konum má finna hér í spilara RÚV.