10 íslenskir þjóðsöngvar sem eru samt ekki íslenski þjóðsöngurinn
10 íslenskir þjóðsöngvar sem eru samt ekki íslenski þjóðsöngurinn...

Hæ, hó, jibbí, jei og jibbí, jei, það er kominn 17. júní og Íslendingar fagna auðvitað þjóðhátíðardeginum eins og ár hvert. Jafnvel extra mikið í dag enda er íslenska lýðveldið orðið 80 ára. Víða um land fara fram hátíðarhöld og þjóðsöngurinn trúlega á vörum margra.Lofsöngur Matthíasar Jochumssonar við lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar er þjóðsöngur Íslands eins og allir vita. Lagið var samið fyrir þjóðhátíð í tilefni af þúsund ára afmælis Íslandsbyggðar 1874 og er alltaf jafn hátíðlegt. En lagið er sumum flókið og textinn getur vafist fyrir fólki í samsöng. Íslendingar eiga mörg önnur lög sem gjarnan eru sungin á mannamótum og Menningarvefur RÚV tók saman lista með nokkrum þeirra.Ég er kominn heim með Óðni Valdimarssyni„Allt er bjart fyrir okkur tveim því ég er kominn heim,“ orti Jón Sigurðsson í ljóðinu Ferðalok. Óðinn Valdimarsson, K.K. sextettinn og fleiri gáfu út lag við ljóð Jóns 1960 sem hefur með árunum orðið að óformlegum þjóðsöng þjóðarinnar. Lagið er til dæmis gjarnan sungið á fótboltaleikjum, ekki síst landsleikjum, og fyllir Íslendinga þjóðarstolti. Lagið er upprunalega ungverskt óperettulag eftir Emmerich Kálmán en Íslendingar hafa lengi haft gaman af því að eigna sér erlend lög og færa kyrfilega inn í þjóðarsálina.Stál og hnífur með BubbaMinnstu munaði að lagið Stál og hnífur fengi ekki að vera á plötunni Ísbjarnarblús sem Bubbi gaf út 1980. Blessunarlega slapp það í gegn og lagið er trúlega þekktasta lag Bubba fyrr og síðar. Fólk sem gengur með þann draum að slá í gegn í útilegunni í maganum hefur æft vinnukonugripin til að geta slegið í gegn með Stáli og hníf í tæp 45 enda lagið sígrænt.Sísí með GrýlunumVeit einhver hvað Grýlurnar eru að syngja í Sísí og skiptir það máli? Ég held ekki. Það er að minnsta kosti alltaf gaman að fríka út með Sísí og Grýlunum og hefur verið allt síðan lagið kom út á plötunni Mávastellið 1983. Hvort sem fólk þarf að fá útrás fyrir femínska reiði, uppsafnaða spennu eða bara hoppa um af hamingju er Sísí einhvern veginn alltaf rétta lagið.Húsið og ég (Mér finnst rigningin góð) með GrafíkHúsið og ég, eða Mér finnst rigningin góð eins og líkleg flestir þekkja lagið, með Grafík svínvirkar á böllum og svínvirkar á leikskólum líka. Lagið kom út á plötunni Get ég tekið cjéns 1984 sem var fyrsta plata sveitarinnar með Helga Björns í broddi fylkingar. Lagið sló auðvitað alveg í gegn og hefur orðið mörgum huggun í rigningunni síðan. Það er best að líta bara á hana sem gjöf og finnast hún góð enda ganga skúrarnir blessunarlega alltaf yfir að lokum.Týnda kynslóðin með Bjartmari GuðlaugssyniTíska níunda áratugarins hefur líklega aldrei verið orðuð betur en af Bjartmari í laginu Týnda kynslóðin. Lagið kom út á plötunni í fylgd með fullorðnum 1987 og þar lýsir Bjartar pabba sem er með eyrnalokk og strípur og barnapíunni sem er með blásið hár. Fullorðna fólkið er á leiðinni á djammið og krakkarnir bíða eftir að hafa heimilið út af fyrir sig og þá verður eitthvað annað en honkítonkið spilað. Hvernig sem því líður elska ungir sem aldnir að syngja um týndu kynslóðina.Ofboðslega frægur með StuðmönnumEf marka má streymisveituna Spotify er Ofboðslega frægur vinsælasta lag Stuðmanna og verðum við ekki bara að treysta því? Lagið kom út á plötunni Hve glöð er vor æska 1990 og fangar einhvern veginn fullkomlega íslensku þjóðarsálina. Við erum smáþjóð og ofboðslega fræga fólkið er hluti af hópnum og við jafnvel þekkjum þau síðan við vorum saman í skóla í gamla daga. Það hlýtur líka að teljast gott að hafa tekist að gera lag svo vinsælt að Íslendingar kunni almennt 300 orða texta lagsins utan bókar og geta brostið í söng þegar kallið kemur.Draumur um Nínu með Stefáni & EyfaDraumur um Nínu var valið vinsælasta íslenska Eurovision-lag allra tíma í könnun í tímaritinu Monitor 2010. Lagið var sjötta framlag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1991 og Eyjólfur Kristjánsson og Stefán Hilmarsson tóku höndum saman og fluttu lagið. Þeir eiga báðir ógrynni ódauðlegra smella á sínum ferli en ætli Nína sé ekki þeirra þekktasta lag. Lagið reið svo sem ekki feitum hesti í Eurovision en Íslendingar láta ekki slíka smámuni trufla sig þegar kemur að góðri tónlist. Draumurinn um Nínu er og verður.Lífið er yndislegt með Landi og SonumÞjóðhátíðarlagið 2001, Lífið er yndislegt, er einhvern vegin þjóðhátíðarlag þjóðhátíðarlaganna. Það er sungið í brekkunni í Vestmannaeyjum á hverju ári, hvort sem sólin skín eða regnið dunar á gestum í Herjólfsdal. Enda er lífið á íslenskri sumarnótt, í góðra vina hópi einfaldlega yndislegt.Þú komst við hjartað í mér með HjaltalínStundum eru lög svo góð að það koma ábreiður af þeim næstum því um leið og lögin koma út. Páll Óskar gaf út lagið Þú komst við hjartað í mér, eftir þá Togga og Bjarka Jónsson, á plötunni Allt fyrir ástina 2007 og aðeins ári seinna sló lagið aftur í gegn í flutningi hljómsveitarinnar Hjaltalín. „Þegar þú komst inn í líf mitt breyttist ég, þú komst við hjartað í mér,“ syngja þau svo undurfagurt að allir, meira að segja mesta svartsýnisfólk, fyllist von og trú á að sönn ást sé til.Í síðasta skipti með Friðrik DórFriðrik Dór flutti lagið Í síðasta skipti í Söngvakeppninni 2018 og vann hug og hjörtu þjóðar með flutningnum þrátt fyrir að vinna ekki keppnina. Það er eitthvað extra skemmtilegt við að spreyta sig á því að syngja Eurovision-hækkunina, hvort sem maður nær því eða ekki, og textinn er auðvitað ómótstæðilegur. „Haltu í höndina á mér og ekki sleppa, sýndu mér aftur hvað er að elska,“ er bara ágætis mottó í lífinu og við ættum öll að taka okkur orð Frikka til fyrirmyndar.