Altjón á um tíu verslunum í Kringlunni
Altjón á um tíu verslunum í Kringlunni...

Fjölmenni er að störfum í Kringlunni í dag við að reykræsta og þrífa og lokað hefur verið fyrir þau svæði sem urðu verst úti. Inga Rut Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Kringlunnar segir að lagt sé upp með að þær verslanir sem geti opnað á morgun verði opnar. Um tíu búðir urðu fyrir altjóni.„Það verður lokað fyrir þær. Það eru einhverjar búðir sem geta samt ekki opnað. Það kom auðvitað óheyrilega mikið vatnsmagn inn í húsið. En allir sem geta opnað munu opna, og það er bara verið að vinna að því í dag að það verði hægt.“ Tjónið er að mestu staðbundið í húsinu. Um fimm verslanir á annarri og fyrstu hæð hvorri um sig skemmdust mest. Inga Rut segir að verið sé að meta tjónið með tryggingafélagi Kringlunnar, en ágiskun um hundraða milljóna tjón séu mögulega ekki fjarri lagi.Fyrir utan skemmdir og annað fjárhagstjón, segir Inga að starfsfólk Kringlunnar og rekstraraðila sé slegið. „Fyrst og fremst erum við ánægð með að það slasaðist enginn. Það er náttúrulega fyrir öllu. En það er mikil samstaða í húsinu. Við erum að halda daglega fundi með rekstraraðilum og vinnum í þessu saman og finnum út úr hlutunum saman hvað hentar hverjum og einum í þessu.“