Ekkert samkomulag um skiptingu æðstu embætta innan ESB
Ekkert samkomulag um skiptingu æðstu embætta innan ESB...

Leiðtogar Evrópusambandsins náðu ekki samkomulagi um tilnefningar í æðstu embætti innan ESB á fundi sínum í Brussel í kvöld. Fyrirfram hafði verið búist við að leiðtogarnir myndu tilnefna Ursulu von der Leyen til að halda áfram sem forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, en deilur um skipan og skiptingu tímabila fyrir önnur embætti urðu til þess að ekkert varð af þeim áformum.Fyrr í kvöld hafði flokkahópur Kristilegra Demókrata á Evrópuþinginu (EPP) sett fram kröfu um að embætti forseta leiðtogaráðsins yrði skipt upp í tvö tímabil, og embættinu skipt milli fulltrúa Sósíal Demókrata (S&D) og Kristilegra Demókrata. Sósíal Demókratar höfðu áður lagt til að Antonio Costa, fyrrverandi forsætisráðherra Portúgals myndi gegna þessu embætti næstu fimm árin.„Það er ekkert samkomulag á þessu stigi málsins,“ sagði Charles Michel, núverandi forseti ráðsins við fjölmiðlafólk, eftir að fundinum lauk um miðnæturbil í Brussel. Michel sagði ljóst að aldrei hefði staðið til að taka endanlega ákvörðun á þessum fundi, en væntingar stóðu hins vegar til þess að leiðtogarnir myndu komast að bráðabirgðasamkomulagi sem síðan yrði staðfest á formlegum fundi þeirra í lok mánaðarins.