„Hafsbotninn okkar á ekki að vera gámakirkjugarður“
„Hafsbotninn okkar á ekki að vera gámakirkjugarður“...

Morten Bødskov, viðskiptaráðherra Danmerkur, hyggst herða reglur um siglingar gámaskipa um lögsögu landsins.Hann skrifar, ásamt kollegum sínum frá Hollandi og Þýskalandi, bréf þess efnis til Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO).Flutningaskip um Norðursjó hafa síðustu misseri misst marga gáma í hafið, sem hafa svo sokkið til botns, eða rekið upp land.Skemmst er að minnast þegar skip missti 46 gáma fyrir borð í óveðri í Norðursjó í desember síðastliðnum. Mikið af rusli og braki rak þá á land við norðurstönd Jótlands. Það kallaði á stórfelldar hreinsunaraðgerðir.„Hafsbotninn okkar á ekki að vera gámakirkjugarður,“ segir í tilkynningu frá Bødskov. „Þeir menga hafið og ógna öryggi sjófarenda.“Þá sé mikil plastmengun af gámum sem lenda í hafinu.Þess vegna riti ráðherrarnir IMO bréf til að hvetja til aðgerða. Meðal annars velta þeir upp möguleikanum á því að herða framleiðslustaðla fyrir flutningagáma, svo öruggara verði að stafla þeim. Þá sé hægt að setja alþjóðlegar reglur um þjálfun áhafna skipanna til að bregðast við vályndum veðrum.„Það eru ekki neinar einfaldar lausnir. Það vitum við og atvinnulífið líka, og þeir taka þessu mjög alvarlega.“