Hvetja Dani til að koma sér upp þriggja daga vistum og viðlagabúnaði
Hvetja Dani til að koma sér upp þriggja daga vistum og viðlagabúnaði...

Yfirvöld í Danmörku mælast til þess að borgarar búi sig undir erfiðleika af völdum veðurs og ytri ógna með því að koma sér upp vistum til þriggja sólarhringa.Troels Lund Poulsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, kynnti þessa viðbragðsáætlun á blaðamannafundi í fyrradag.Að sögn almannavarna í Danmörku steðja ýmsar ógnir að dönsku þjóðinni. Meðal annars óútreiknanleg veðurfyrirbæri eins og vatnsflóð, sem ollu til dæmis mikilli röskun á síðasta ári.Yfirvöld vara líka við svokölluðum fjölþáttaógnum, þar sem óvinveitt ríki gera atlögu að innviðum ríkja á margvíslegan hátt. Þess háttar ógnir tengjast ekki síst Rússlandi, enda hafa Danir stutt dyggilega við Úkraínu.Yfirvöld hafa tekið saman skýr tilmæli um hvað þarf að gera en Poulsen sagði að rétt væri að borgarar gætu verið sjálfbærir um vistir og fleira í þrjá daga hið minnsta.Samkvæmt tilmælunum ætti fólk að vera með þrjá lítra af vatni á mann á dag, matvæli sem geymist vel og auðvelt er að tilreiða. Líka öll nauðsynleg lyf og fyrstu hjálp, teppi, dýnur og sængur, hreinlætisvörur eins og klósettpappír, bleiur og tíðavörur, auk orkubanka, rafhlaðna og ljósa, greiðslukorta og reiðufjár og ferðaútvarps sem gengur fyrir rafhlöðum.