Íþróttahreyfingin festi 17. júní í sessi
Íþróttahreyfingin festi 17. júní í sessi...

Íslenska lýðveldið var stofnað hinn 17. júní árið 1944, en sá dagur varð fyrir valinu þar sem sjálfstæðishetjan Jón Sigurðsson fæddist 17. júní árið 1811. Saga hátíðarhalda á 17. júní nær þó mikið lengra aftur en bara til lýðveldisstofnunarinnar. Það var nefnilega íþróttahreyfingin sem festi 17. júní í sessi sem hátíðisdag.„Þó svo að það hafi verið haldið upp á afmæli Jóns Sigurðssonar, 100 ára afmælið hans árið 1911 þá var langur vegur til þess að nokkrum dytti í hug að þetta yrði þjóðhátíðardagur. Þetta gerðist á löngum tíma, en þetta framlag íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar hafði held ég afgerandi áhrif í þessu sambandi,“ segir Jón M. Ívarsson meðal annars í þættinum „17. júní – Hátíðisdagur íþróttamanna,“ sem var á dagskrá Rásar 1 í morgun.„Það er ekki fyrr en árið 1971 að afmælisdagur Jón Sigurðssonar er gerður að lögbundnum frídegi,“ segir Guðmundur Hálfdánarson prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands í þættinum sem tekur undir það að íþrótta- og ungmennafélagshreyfingin á Íslandi hafi átt stóran þátt í að fefsta 17. júní í sessi.„Ungmennafélagshreyfingin þegar hún er stofnuð er fyrst og fremst mjög þjóðernissinnuð hreyfing. Einkunnarorð hennar var „Íslandi allt“ sem stendur fyrir svona ræktun lands og lýðs, að ekki bara að rækta líkamann, heldur líka rækta landið.“Afmælisdags Jóns Sigurðssonar fyrst minnst árið 1886Fæðingardegi Jóns Sigurðssonar var fyrst minnst Þorláki Ó. Johnson kaupmanni í Reykjavík árið 1886 sem hélt kaffisamsæti fyrir valda gesti, en það festist ekki í sessi og deginum var svo ekki minnst með opinberum veglegum hætti með samkomum fyrr en árið 1907. Skömmu síðar fór íþróttahreyfingin að tileinka sér daginn. Í vikublaðinu Norðurlandi var fjallað um í byrjun apríl árið 1909 að Ungmennafélögin á Norðurlandi hygðust halda íþróttamót á 17. júní það ár.„Þannig að þeir, ungmennafélagar norðlenskir og Ungmennafélag Akureyrar var náttúrulega aðal félagið þar. Þeir ákveða að halda veglegt íþróttamót og þeir kölluðu þetta bara fyrsta íþróttamót á Íslandi, það er að segja þar sem keppt var í mörgum greinum,“ segir Jón M. Ívarsson.Samfella frá 1919„En þetta mót var sumsé haldið 17. júní 1909 með miklum bravör og glæsibrag og menn stóðu sig vel. Það sérstaka við þetta mót er að löngu síðar var það dubbað upp og gert að fyrsta Landsmóti UMFÍ, þó það hafi alls ekki verið það á þessu tíma,“ segir Jón í útvarpsþættinum sem aðgengilegur er hér fyrir ofan og í Spilara RÚV.Hinn 17. júní árið 1911, þegar hundrað ár voru frá fæðingu Jóns Sigurðssonar var hátíðardagskrá í Reykjavík og var íþróttamót á Melavellinum eða íþróttavellinum eins og hann nefndist einfaldlega þá, hluti af dagskránni. 17. júní mótið þetta árið hófst klukkan fimm. Þórhallur biskup hélt ræðu áður en mótið hófst formlega en á því sýndu bæði piltar og stúlkur leikfimi að viðstöddum um 3000 áhorfendum. Íþróttavöllurinn hafði raunar verið vígður fyrr um vorið og þar með glænýr í Reykjavík. Þetta var jafnframt fyrsta Landsmót UMFÍ, en það sem síðar var tölusett sem annað landsmótið.Íþróttahreyfingin hóf hefðina að leggja blómsveig við gröf JónsFyrstu árin var ekki alveg árlegt að það væri íþróttamót haldið á 17. júní en frá árinu 1919 komst á samfella og frá árinu 1920 komst á formfesta þar sem hluti af dagskrá mótsins var skrúðganga með lúðrasveit frá Austurvelli suður í Hólavallakirkjugarð, þar sem blómsveigur var lagður á gröf Jóns Sigurðssonar ásamt ræðuhöldum. Að því loknu var mótið svo formlega sett af forseta ÍSÍ á íþróttavellinum. Þar með hafði íþróttahreyfingin endanlega komið á árlegri hátíðardagskrá í tilefni af afmælisdegi Jóns Sigurðssonar.Það er alveg ljóst að 17. júní varð smásaman að rótgrónum degi íþróttahreyfingarinnar sem hélt deginum á lofti sem hluta af sjálfstæðisbaráttu. Ólafur Thors þá atvinnumálaráðherra, fór fögrum orðum um framlag íþróttahreyfingarinnar í ræðu sinni við leiði Jóns Sigurðssonar á 17. júní árið 1939. Það er verðugt að íþróttamenn heiðri minningu þessa þjóðforingja með því að staldra við hjer við leiði hans, er þeir hefja höfuð-íþróttamót ársins, því einnig þeirra fyrirmynd var hann. Enginn hefur keppt fastar að markinu en hann. Hvergi hafa dygðir hins sanna íþróttamanns, þrautsegjan, krafturinn og drenglyndið lýst sjer sterkar en hjá honum. Íþróttamenn sýna einnig viturleik, er þeir hefja hjer mót sitt. Ást og virðing fyrir Jóni Sigurðssyni á vissulega sinn þátt í vaxandi afrekum íslenskra íþróttamanna, því áreiðanlega er margt heitið unnið hjer við leiði hans, bæði um að leggja fram kraftana á sjálfu íþróttamótinu sem og iðka æfingar og stæla þróttinn til næsta móts.Íþróttamótinu frestað um einn dag við lýðveldisstofnuninaÞegar lýðveldið Ísland var stofnað á Þingvöllum 17. júní 1944 varð í fyrsta sinn að fresta Hátíðahöldum íþróttamanna um einn dag til 18. júní. Engu að síður lögðu íþróttamenn, stjórn Í.S.Í. og formenn félaganna, blómsveig á leiði Jóns Sigurðssonar að morgni þess 17. júní. 18. júní gengu íþróttamenn fylktu liði um bæinn upp á völl. Var þetta einhver fjölmennasta og skrautlegasta ganga sem sézt hafði við þessi hátíðahöld.Allt var nokkurn veginn svipað til og með ársins 1958 en árið 1959 var Laugardalsvöllur vígður á 17. júní. Þar var mikil íþróttasýning þar sem á annað þúsund fimleikafólks sýndi auk þess keppt var í fjölda íþróttagreina venju samkvæmt á þessum degi. Vígsla Laugardalsvallar var hluti af formlegri hátíðardagskrá þjóðhátíðardagsins, en þetta var jafnframt í fyrsta sinn sem ekki var gengið frá Austurvelli á íþróttamótið eins og verið hafði árin á undan. Árið 1960 var hins vegar aftur keppt á Melavellinum á 17. júní þó svo að Laugardalsvöllurinn hefði verið tekinn í notkun en ári síðar var það aftur á Laugardalsvelli og alveg eftir það.Árið 1968 var bæði ávarp forsætisráðherra og ávarp Fjallkonunnar á Laugardalsvelli og því í raun aðal hátíðarhöld dagsins þar. Þessi hefðbundna 17. júní dagskrá var hins vegar þar áður en íþróttamótið hófst. Mikil dagskrá var líka við Laugardalshöll og einnig við Laugardalslaug. 17. júní íþróttamótin héldu göngu sinni allt til ársins 1981 þegar þau liðu undir lok og er fjallað um líklegar ástæður þess í þættinum, auk þess sem saga mótanna er rakin þar og rökstutt frekar hvernig íþróttahreyfingin festi 17. júní í sessi.