Kosningabaráttan formlega hafin eftir snarpar vendingar
Kosningabaráttan formlega hafin eftir snarpar vendingar...

Hálfur mánuður er nú þar til fyrri umferð þingkosninganna í Frakklandi verður haldin. Franska þingið var formlega rofið í gær, skömmu eftir að frestur rann út til að leggja fram lista frambjóðenda fyrir þau 577 kjördæmi þar sem kosið verður.Rúm vika er nú síðan Emmanuel Macron, forseti Frakklands tilkynnti að hann ætlaði að rjúfa þing og boða til kosninga. Macron tilkynnti þessa ákvörðun aðeins klukkustund eftir að ljóst var að flokkur hans, Endurreisn (Renaissance), hefði beðið afhroð í kosningunum til Evrópuþingsins um síðustu helgi; í þeim sigraði Þjóðfylking Marine Le Pen (Rassemblement National – RN) með afgerandi hætti.Á þeim tíma sem liðinn er, hafa orðið stórar, og mögulega afdrifaríkar vendingar í frönskum stjórnmálum; vendingar sem Macron sá mögulega ekki fyrir.Þannig hafa flokkar á vinstri vængnum sameinast um kosningabandalag undir nafninu Noveau Front Populaire (sem er vísun í bandalag álíka flokka í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar).Á hægri væng stjórnmálanna – þar sem Þjóðfylkingin er með ráðandi stöðu – hefur þessi viðleitni verið brokkgeng, svo ekki sé meira sagt. Repúblikanaflokkurinn er klofinn, eftir að forseti flokksins lýsti yfir samstarfi við Þjóðfylkinguna, og tilraunir leiðtoga innan Reconquête, sem er lítill öfga-hægri flokkur, til að mynda bandalag með Þjóðfylkingunni fóru út um þúfur.Miðjubandalagið (Ensemble) þar sem flokkur Macrons er alls ráðandi, var með stærsta hóp þingsæta á franska þinginu, en lendir nú á milli stórra (og mis-sameinaðra) fylkinga á hægri og vinstri væng stjórnmálanna.Flókið kerfi og taktísk framboðNýjar skoðanakannanir benda til þess að Þjóðfylkingin, með Marine Le Pen og forseta flokksins, Jordan Bardella í fararbroddi, gæti fengið um 35 prósent í kosningunum. Kosningakerfið er hins vegar flókið; aðeins einn frambjóðandi er valinn í hverju kjördæmi (einmenningskjördæmi), það eru tvær umferðir (30. júní og 7. júlí) og reglurnar um það hvaða frambjóðendur komast í aðra umferð, bjóða upp á taktískar kosningar.Framboð flokkanna og flokkabandalaganna eru líka taktísk; flokkarnir sem vinna saman passa sig á því að bjóða ekki fram hver gegn öðrum, þeir velja kjördæmi fyrir hvern flokk og reyna að auka sem mest líkurnar á að einhver (eða einhverjir) af þeirra frambjóðendum komist í gegnum fyrri umferðina. Flokkarnir eru líka raunsæir; þannig hafa leiðtogar Ensemble (flokks Macrons) til dæmis ákveðið að í 65 kjördæmum (af 577) sé staðan svo slæm að það þjóni engum tilgangi að senda þangað frambjóðendur. Eitt af þeim er kjördæmið í Corrèze héraði, þar sem Francois Hollande, fyrrum forseti Frakklands ákvað að bjóða sig fram: þar hefur Ensemble meira að segja ákveðið að lýsa yfir stuðningi við frambjóðanda úr Repúblikanaflokknum.Stórt veðmálStjórnmálaskýrendur hafa flestir lýst ákvörðun Macrons sem stóru veðmáli; forsetinn sé meðal annars að veðja á að þótt kjósendur hafi verið tilbúnir að senda fulltrúa Þjóðfylkingarinnar á Evrópuþingið, þá muni þeir hika við að velja þá á þjóðþingið í París. Macron hefur einnig lýst þessum kosningum sem vali milli þriggja kosta; það eru öfgaöfl á hægri og vinstri vængnum segir forsetinn, og best sé að velja hófsama miðjubandalagið sem hann leiðir.Álitsgjafar og málsmetandi stjórnmálaleiðtogar hafa hins vegar gagnrýnt forsetann fyrir að taka áhættuna og bjóða upp á möguleikann á því að harðlínuflokkar til hægri nái völdum á franska þinginu og komist þannig í ríkisstjórn; Lionel Jospin, fyrrverandi forsætisráðherra og leiðtogi Sósíalista sagði við franska stórblaðið Le Monde að það væri óábyrgt af forsetanum að hafa boðað til kosninga.Í sama streng tók Nikolas Sarkozy, forveri Macrons í embætti forseta í viðtali við Journal du Dimanche; ákvörðun Macrons gæti skapað óreiðu sem Frakkland ætti í vandræðum með að komast út úr.