Líkindi með innrás í Úkraínu og innlimun Eystrasaltsríkja...
Litáen er meðal þeirra ríkja sem hefur veitt Úkraínu hvað mestan stuðning eftir allsherjarinnrás Rússlandshers, miðað við verga landsframleiðslu. Forsætisráðherra landsins, Ingrida Simonyte, sem er í vinnuheimsókn hér á landi, segir stuðninginn bæði hernaðarlegan og borgaralegan. Fjöldinn allur af félagasamtökum bjóði fram aðstoð við fólk í nágrannaríkinu. „Þetta gerist vegna umboðs frá þjóðinni. Það er ekki það að stjórnmálamenn taki ákvarðanirnar og samfélagið sé annarrar skoðunar,“ segir hún.Segir þetta stríð evrópskrar siðmenningar og gildaÞað sé ríkjandi skoðun meðal landa hennar að ófriðurinn sé ekki einkamál Úkraínumanna. „Þetta er stríð evrópskrar siðmenningar fyrir gildin sem við eigum sameiginleg og byggjum á líf okkar og velferð gegn vægðarlausu valdi. Þar sem einhver lítur svo á að hann geti ákvarðað landamæri þjóða að nýju bara af því að hann eigi rétt á því.“Þá minni orðræða og aðferðir stjórnvalda í Rússlandi Litáa á innlimun Eystrasaltsríkjanna í Sovétríkin á fimmta áratug síðustu aldar. „Fjöldaútlegð, barnsránin, lygarnar um sögu okkar og sögu Rússlands ef út í það er farið,“ segir Simonyte.Fólk drepið á meðan fundað er um aðstoðEn hafa Vesturveldin gert nóg til að hjálpa Úkraínu? Simonyte telur að oft hafi mátt vinna hraðar. Mikill tími fari í viðræður um það hvort verið sé að ganga of langt með tiltekinni hjálp. „Svo gerist eitthvað og tekin er ákvörðun og stuðningurinn er veittur. Við þurfum að átta okkur á því að á meðan umræðan fer fram deyr fólk á hverjum degi; það er verið að drepa það.“Það mikilvægasta, að mati forsætisráðherrans, er að innan Vesturveldanna sé skilningur á því sem eigi sér stað í Úkraínu. „Þetta stríð er tilefnislaust og óréttlátt; Úkraína átti þetta aldrei skilið. Úkraína berst einfaldlega af því að hún vill ráða framtíð sinni og sú framtíð fellur ekki innan þess ramma sem Pútín ætlar öðrum þjóðum.“ …