Öruggt hjá Rúmenum gegn Úkraínu...

Rúmenía og Úkraína mættust í fyrsta leik dagsins á EM í fótbolta. Úkraína tryggði sér sæti á mótinu með sigri á Íslandi í umspilinu en varð að sætta sig við 3-0 tap í þessum fyrsta leik sínum. Rúmenar skoruðu fyrsta mark leiksins á 29. mínútu en þá misheppnaðist hreinsun Andriy Lunin úr marki Úkraínu manna. Boltinn barst í kjölfarið til fyrirliða Rúmena, Nicolae Stanciu, sem þrumaði boltanum í markið. 1-0 stóð í hálfleik en Rúmenar komu sér í þægilega stöðu á fjögurra mínúta kafla í seinni hálfleiknum. Razvan Marin skoraði annað mark þeirra á 53. mínútu og á 57. mínútu var Denis Dragus svo búinn að koma stöðunni í 3-0. Það urðu lokatölur og Rúmenar sækja fyrstu þrjú stigin sín á mótinu. Denis Dragus fagnar marki sínu í dag.EPAHinir tveir leikir dagsins á EM eru viðureignir Belgíu og Slóvakíu klukkan 16:00 og svo Austurríkis og Frakklands klukkan 19:00. Báðir leikir eru sýndir beint á RÚV.