Running Tide segjast hafa unnið innan rannsóknarheimilda...
Saga Running Tide á Íslandi nær til júní 2022. Fyrirtækið hugðist rækta risaþörunga úti á hafi með sérstökum baujum samsettum úr trjákurli og kalksteini en höfuðstöðvar þess voru á Akranesi.Tilgangurinn var að þörungurinn drægi í sig kolefni úr andrúmsloftinu og sykki til botns. Þannig tækist fyrirtækinu að kolefnisbinda koldíoxíð á hafsbotni.Segjast hafa deilt öllum gögnumHeimildin greindi frá því fyrir helgi að fjölmargir vísindamenn teldu verkefnið ekki standast neina skoðun. Svo virðist sem eftirlit hafi verið af skornum skammti, en framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að öllum gögnum hafi verið deilt með Umhverfisstofnun.Fyrirtækið flutti inn tugi þúsunda af trjákurli og vörpuðu hátt í tuttugu þúsund í hafið. Það gerðu þeir til þess að kolefnisjafna fyrirtæki eins og Microsoft, Shopify og fleiri.Eftir stendur tæplega tíu metra hátt fjall sem samanstendur af kanadísku trjákurli sem átti að varpa í hafið sem hluta af efni í bauju.Nú er fyrirtækið hætt störfum og óvíst hvað verður um hauginn. Framkvæmdastjóri Running Tides segir ekkert sérkennilegt við það magn trjákurls sem hafnaði í sjónum.Segja djúp hafsins varanlega geymslu„Það sekkur mjög mikið af timbri í hafið á ársvísu á heimsvísu, og binst þar vanalega í djúpsjó. Það gerist náttúrulega. Og þegar maður er að tala um kolefnisbindingu með því að nota lífmassa eins og timbur eða plöntur eða annað. Og til þess að það sé varanlegt, þarf það að fara þangað sem það er varanlega geymt,“ segir Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, framkvæmdastjóri Running Tide.En allt kynningarefni tengt Running Tide gekk út á stórþörungarækt. Hvað varð af henni?„Hún var bara í bullandi gangi á Akranesi eins og flestir sem komu og heimsóttu okkur sáu,“ segir Kristinn Árni.Segja kaupendur hafa staðfest bindinguStóra spurningin er þá; hefur fyrirtækinu tekist að kolefnisbinda eitthvert magn?„ Í fyrra þá bundum við nettó um 25 þúsund tonn varanlega á hafsbotni og það hefur verið staðfest af vísindafólki hjá Microsoft og Shopify og öðrum sem fóru yfir gögnin okkar,“ segir Kristinn Árni.Enginn hlutlaus aðili hefur enn þá staðfest hina meintu bindingu, aðrir en þeir sem keyptu svokallaðar valkvæðar kolefniseiningar Running Tide. Kristinn heldur því til haga að öll gögn hafi verið send á Umhverfisstofnun og bendir á að hluti af rannsóknarverkefninu hafi verið að búa til ferla svo hægt væri að votta einingarnar.Leyfi til þess að fleyta 50 þúsund tonnumEn var fyrirtækið með leyfi til þess að henda svona miklu trjákurli út í hafið?„Við vorum með leyfi til þess að fleyta 50 þúsund tonnum af flothylkjum og flothylkin áttu að vera gerð úr timbri, kalksteini og öðru,“ svarar Kristinn.Í ljósi þess að fyrirtækið er hætt störfum, hvað verður gert við kurlið sem er eftir?„Það verður bara að koma í ljós,“ svarar Kristinn. …