„Þetta var svona erfitt og létt á sama tíma“...
Þau Snorri Dagur Einarsson, Einar Margeir Ágústsson, Símon Elías Statkevicius og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir syntu öll í undanrásum á EM í morgun. Snorri Dagur og Einar Margeir kepptu báðir í 100 metra bringusundi og urðu báðir efstir í sínum undanriðlum á nýju persónulegu meti.Einar á 1 mínútu og 2,39 sekúndum og Snorri á 1 mínútu og 1,66 sekúndum. Snorri endaði í 22. sæti og Einar í 31. sæti en Snorri var aðeins tveimur sætum frá sæti í undanúrslitunum. Sá síðasti sem komst þar inn synti á 1 mínútu og 1,36 sekúndum.Snorri var nokkuð sáttur með sundið að því loknu. „Líður mjög vel, mjög erfitt en bara gott. Skrítnir svona fyrstu 50, þetta var svona erfitt og létt á sama tíma. Seinni 50 ég var svona farinn að vera mjög þreyttur þá.“Snorri á eftir að keppa í 50 metra bringusundi en það mun hann gera á föstudaginn. Markmiðið er að komast í undanúrslit þar.Jóhanna Elín Guðmundsdóttir synti svo á 57,13 sekúndum í undanrásum 100 metra skriðsundsins og varð í 29. sæti og þá endaði Símon Elías í 43. sæti í undanrásum 50 metra flugsundsins á 24,64 sekúndum.„Það er bara geðveik stemming að vera í kringum þau bestu í Evrópu og ég er þakklátur fyrir að vera partur af þessari keppni. Mér leið mjög vel í vatninu en ég er aðeins hægari en ég á best þannig ég veit ekki alveg hvað klikkaði en það er bara hausinn upp og halda áfram,“ sagði Símon Elías eftir sitt sund en hann á eftir að synda 50 og 100 metra skriðsund á mótinu.„Kannski ekki bæting en allavega fyrsta sund þannig ég er alveg frekar sátt. Að synda í útilaug er náttúrulega alltaf öðruvísi en að synda í innilaug…Alltaf markmið að bæta tímana sína, annars bara að hafa gaman,“ sagði Jóhanna að sundi loknu en hún á eftir að synda bæði 50 metra flugsund og 50 metra skriðsund.RÚV sýnir beint frá öllum mótshlutum en síðdegishluti dagsins í dag hefst á RÚV 2 klukkan 16:30. Í fyrramálið hefst morgunútsending á RÚV klukkan 7:30. …