Von der Leyen að líkindum tilnefnd af leiðtogum Evrópusambandsins
Von der Leyen að líkindum tilnefnd af leiðtogum Evrópusambandsins...

Allt bendir til þess að núverandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, verði áfram í embættinu næstu fimm árin. Tilnefning hennar verður rædd þegar leiðtogar aðildarríkjanna koma saman á á óformlegum fundi í Brussel í kvöld og að líkindum formlega afgreidd síðar í mánuðinum.Samstaða virðist einnig vera að myndast um að Antonio Costa, fyrrverandi forsætisráðherra Portúgals verði næsti forseti leiðtogaráðs ESB, og að Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands taki við af Joseph Borrell, sem utanríkismálastjóri Evrópusambandsins.Von der Leyen hefur um langa hríð verið talin líklegust til að fá tilnefningu leiðtogaráðsins, en sterk niðurstaða flokkahóps hennar, Kristilegra Demókrata (EPP) í kosningunum til Evrópuþingsins um síðustu helgi, styrkti stöðu hennar enn frekar. Hún virðist nú hafa vísan stuðning frá Olaf Scholz, Þýskalandskanslara, sem og Emmanuel Macron, forseta Frakklands. Af 27 leiðtogum aðildarríkjanna, koma 12 úr flokkum sem eru hluti af EPP-hópnum á Evrópuþinginu.Tilnefning hennar, sem og skipan í önnur æðstu embætti, verður rædd á leiðtogafundinum í kvöld, en búist er við að endanleg ákvörðun verði tekin á formlegum fundi leiðtoganna í lok þessa mánaðar. Aukinn meirihluti (15 af 27 ríkjum, með 65% íbúa ESB) nægir til að staðfesta þessa ákvörðun.Þingmenn á Evrópuþinginu greiða síðan atkvæði um frambjóðanda leiðtogaráðsins um miðjan næsta mánuð; þar þarf að minnsta kosti 361 atkvæði af 720. Talið er líklegt – en þó ekki öruggt – að Von der Leyen fái meirihluta atkvæða á þinginu.